Sím.listamenn

Yfirlýsing frá stjórn SÍM er varðar úthlutunarnefnd starfslauna myndlistarmanna

20. janúar, 2021

Yfirlýsing frá stjórn SÍM er varðar úthlutunarnefnd starfslauna myndlistarmanna

Stjórn SÍM – Sambands íslenskra myndlistarmanna fagnar því að umræða sé komin upp um listamannalaun. Þar má í grunninn greina óánægju með þá staðreynd að listamannalaun hafa skerst verulega undanfarin 10 ár, á tímum þegar fjölgað hefur umtalsvert í stétt starfandi myndlistarmanna. SÍM leggur áherslu á að laun verði gerð að fullum launum, í stað 2/3 hluta launa núna, og að úthlutuðum mánaðarlaunum verði fjölgað til muna.

Stjórn SÍM harmar hinsvegar að myndlistarmenn tortryggi þá fulltrúa sem hún hefur sjálf tilnefnt í það vandasama hlutverk að velja hverjir af samverkamönnum þeirra hljóti þau takmörkuðu gæði sem listamannalaun eru.

SÍM ber fullt traust til fulltrúa sinna sem unnið hafa af samviskusemi við að taka erfiðar ákvarðanir um lífsviðurværi myndlistarmanna á erfiðum tímum. Það er forsenda þess að vera valinn í nefndina að viðkomandi séu virkir myndlistarmenn eða sýningarstjórar með góð tengsl við myndlistarheiminn og yfirgripsmikla yfirsýn. Það hafa allir núverandi fulltrúar til að bera. Það er því óásættanlegt þegar óvandaðir miðlar reyna að varpa rýrð á framlag viðkomandi fulltrúa, einmitt vegna þessarar sömu virkni og tenginga.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com