Untitled 12

Vigdís Finnbogadóttir setur málþing um listakonuna Sigrúnu Guðjónsdóttur í Gerðubergi

Vigdís Finnbogadóttir setur málþing um Sigrúnu Guðjónsdóttur við opnun sýningar á verkum hennar

Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi
Laugardaginn 12. nóvember kl. 13

Myndlistarmaðurinn Rúna – Sigrún Guðjónsdóttir – fæddist 15. nóvember 1926 og fagnar því níræðisafmælinu um þessar mundir. Í tilefni af því efnir Gerðuberg til málþings um ævi hennar og störf þann 12. nóvember næstkomandi undir yfirskriftinni Línudans. Sama dag opnar þar sýning á nýjum og nýlegum verkum Rúnu, en hún starfar enn að list sinni og er því væntanlega elsti starfandi myndlistarmaður landsins.

Á málþinginu, sem frú Vigdís Finnbogadóttir mun setja, verður fjallað um hina ýmsu þætti á listferli Rúnu; Guðný Magnúsdóttir talar um leirlistina, Kristín Ragna Gunnarsdóttir um myndskreytingar, Valgerður Bergsdóttir talar um störf Rúnu að félagsmálum og Aðalsteinn Ingólfsson um málaralistina. Málþingið hefst klukkan 13, en málverkasýningin opnar að því loknu, kl. 16. Sýningin í Gerðubergi mun standa yfir til 5. febrúar.

Rúna hefur helgað sig myndlistinni frá því hún kom heim frá námi við Konunglegu listakademíuna í Kaupmannahöfn árið 1947, en myndverk eftir hana voru fyrst sýnd árið 1951. Hún stundaði lengi myndlistarkennslu, vann við bókaskreytingar og leirlist auk málverksins, en það síðastnefnda hefur tekið meira og meira rými með tímanum.

Á sýningunni í Gerðubergi eru eingöngu verk frá síðustu tveimur árum, unnin með akrýllitum og þurrkrít á handgerðan japanskan pappír. Flæðandi línuspil er eitt höfuðeinkenna í verkum Rúnu og í myndunum má sjá þekkt stef úr smiðju hennar eins og sterk, kvenleg form, fugla, fiska og báta, en áhrifa ævintýrsins gætir einnig í mettuðum litum sem oft glitra af silfri og gulli.

Viðburðurinn á Facebook.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com