Víðróf

Víðróf Bjarna H. Þórarinssonar opnar í BERG Contemporary 2.mars kl.17

Sýning Bjarna H. Þórarinssonar, Víðróf opnar í BERG Contemporary laugardaginn 2. mars kl. 17. Sýningin samanstendur af nýjum blýantsteikningum eftir Bjarna.

Hinar flóknu en undarlega heillandi Vísirósir Bjarna H. Þórarinssonar eru hluti af viðamiklu verkefni sem hófst árið 1987. Í þessum fínlegu blýantsteikningum rennur tungumálið inn í formfasta, myndræna framsetningu – tungumálið og myndin verða eitt. Að baki verkunum liggja langir orðalistar sem Bjarni kallar róf, en í þeim kannar hann mögulegar samsetningar orða og hugmynda svo úr verður eins konar heildarsýn á tiltekin svið mannlegrar hugsunar. Í teikningunum losna þessar orðasamsetningar úr viðjum hins línulega lista og mynda í staðinn hring eða hjól þar sem allt tengist saman í einni hreyfingu og býður upp á óendanlega möguleika til lesturs og skilnings. Á sýningunni Víðróf í BERG Contemporary má sjá á annað hundrað verka sem ekki hafa áður verið sýnd opinberlega.

Bjarni H. Þórarinsson (f. 1947) stundaði nám við Myndlista-og handíðaskóla Íslands á árunum 1973-1977 og útskrifaðist úr Nýlistadeild. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík, stærðfræðideild, árið 1968.

Árið 1977 stofnaði Bjarni ásamt fleiri listamönnum Gallerí Suðurgötu 7, sem var mikilvægur vettvangur nýlista á þeim tíma. Á vegum gallerísins var gefið út tímaritið Svart á hvítu þar sem kynntir voru nýir straumar og stefnur í listum og menningu. Bjarni var einn af stofnfélögum Nýlistasafnsins árið 1978. Á fyrstu árum listferilsins vann Bjarni í anda flúxus og nýlista og flutti og samdi meðal annars gjörninga, performansa og kvikmyndahandrit. Myndlist hans tók nýja stefnu árið 1987 þegar hann lagði grunn að kerfi hugmynda, svokallaðri Sjónháttafræði. Hún tekur til allra þátta tilverunnar; sjónlista, heimspeki, tungumáls, form- og merkingarfræði sem hann myndgerir í Vísirósum. Formkerfið er í stöðugri vinnslu og ný hugtök og heiti verða til um leið og rannsóknir, hugmyndafræði og greining tungumálsins renna saman. Verk Bjarna hafa verið sýnd í öllum helstu söfnum á Íslandi og víða erlendis og þau er að finna í safneignum opinberra listasafna, jafnt sem einkasöfnum.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com