Gerðasafn

Viðburðadagskrá RIFF í Gerðarsafni

Dagana 29. september – 2. október fer fram spennandi viðburðadagskrá RIFF í Gerðarsafni: kvikmyndasýningar, hópdáleiðsla við lifandi tónlist og listsýning í formi kvikmyndar.
Dáleiðsla og kvikmyndalist
29. september kl. 20
Miðaverð: 1.500 kr

Franski dávaldurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Gurwann Tran Van Gie var valinn sem listamaður hins árlega samstarfs á milli þriggja hátíða: RIFF, Hors Pistes hátíðarinnar í París og Air d’Islande. Hann sýnir nýjasta kvikmyndaverkefni sitt Honest Experience og verður með hópdáleiðslu við lifandi tónlist að kvikmyndasýningu lokinni. Um er að ræða einstakan viðburð þar sem kvikmyndalist og dáleiðsla fer saman. Sýningin fór fyrst fram á hinu víðfræga Pompidou-safni í París í janúar og er nú sýnd á RIFF. Honest Experience er tilraunakennd mynd sem fjallar um heilindi. Hún birtir fjóra einstaklinga sem eru dáleiddir af Gurwann sem spyr út í sannleikann um það sem knýr þá áfram til þess að skapa og hafa áhrif.
Pólskar hreyfimyndir
30. september kl. 17 – 18:30
Aðgangur ókeypis

Wojtek Wawszczyk og Zofia Scislowska frá Polish Animation Association kynna pólsk verk á sviði hreyfimynda og tæknibrella. Um er að ræða kynningu og sýningu á fjórum pólskum hreyfimyndum; Ziegenort, Hipopotamy, The Lost Town of Switez og Chick.Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Adam Mickiewicz Institute í Póllandi.
Pólsk kvikmynda- og myndlist
2. október kl. 16
Aðgangur ókeypis

Höfundar nýju bókarinnar Polish Cine Art, þau Jakub Majmurek og Lukasz Ronduda, fjalla um notkun pólskra myndlistarmanna á kvikmyndamiðlinum. Kvikmyndin The Performer (2015) í leikstjórn Maciej Sobieszczanski og Lukasz Ronduda, sem fjallað er um í bókinni, verður sýnd kl. 16 og að sýningu lokinni taka við umræður með höfundum Polish Cine Art. The Performer veitir innsýn í heim nútímalistar og byggir á lífi gjörningalistamannsins Oskar Dawicki, sem leikur sjálfan sig. The Performer er í raun listasýning í formi kvikmyndar.

Viðburðadagskráin er hluti af liðnum RIFF í Kópavogi sem fer fram í Bókasafni Kópavogs (Hamraborg), Gerðarsafni, Gjábakka, Molanum, Salnum og Sundlaug Kópavogs. Upplýsingar um aðra viðburði RIFF í Kópavogi er að finna á heimasíðu hátíðarinnar: http://riff.is/is/riff-i-kopavogi/

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com