Untitled 5

Verið velkomin á fyrstu sýningaropnun ársins í Ekkisens

Verið velkomin á fyrstu sýningaropnun ársins í Ekkisens laugardaginn 16. janúar kl. 17:00. Sýningin stendur til 30. janúar og verður opin frá kl. 17:00 – 19:00 frá mið – fös og 15:00 – 18:00 um helgar.

Á sýningunni Landslagur sýnir Anton Logi Ólafsson ný málverk innblásin af náttúru landsins sem hann vann að síðastliðið ár. Sum verkanna eru máluð undir berum himni, önnur eftir ljósmyndum og skissum frá ferðalagi listamannsins um Austurland og Hvalfjörð. Verkin á sýningunni eiga það sameiginleg að sýna nýja mynd af landslagi landsins og eru nýstárleg hvað það varðar. Strigarnir eru einnig sérstakir fyrir þær sakir að vera heimatilbúnir úr dagblöðum og taui og málað er með akrýl, skipalakki og því sem býðst hverju sinni.

Anton Logi Ólafsson (f.1991) útskrifaðist frá Myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2015. Hann hefur hingað til unnið verk í margvíslega miðla, þar á meðal gjörningaverk, vídjóverk og skúlptúra. Verk hans hafa oft á tíðum verið samsuða úr fundnum efniviði og endurspeglað dægur- og kynjamenningu. Eftir útskrift hefur hann meðal annars tekið þátt í hústökusýningum Ekkisens, HÁVAÐI II, Dóbía af öðrum heimi í Alþýðuhúsinu á Siglufirði og Kynleikum sem opnuðu í Ekkisens, fluttu sig yfir í Ráðhúsið og lokuðu með þriðju opnun í Tjarnarbíó. Landslagur er fyrsta einkasýning Antons eftir útskrift og þar helgar hann sig málverkinu og stígur inn í landslagshefðina.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com