Velkomin á opnun myndlistarsýningar Katrínar Matthíasdóttur í Gerðubergi laugardaginn 11. apríl kl. 14

 heimasida_katrin_matthias

Inntak sýningarinnar Hvert liggur leiðin? er ásjóna barnsins í víðsjárverðum heimi. Verkin eru áleitin og til þess falinn að vekja áhorfandann til umhugsunar um sameiginlega ábyrgð okkar allra á framtíðinni.

 

Sýningin samanstendur af olíumálverkum, púsli, gvassi og vatnslitamyndum, lágmyndum auk skúlptúrs. Myndefnið er tvískipt, annars vegar portrettmyndir af drengjunum hennar þremur, sem eru fulltrúar þess góða og fallega í lífi listamannsins og hins vegar myndir af börnum og samsettar lágmyndir sem vísa til heimsvár eins og ófriðar, misskiptingu, mengunar og loftslagsbreytinga.

 

Hvaða hugsanir búa með barni? Hver er ásjóna barnsins í viðsjárverðum heimi? Hvernig styrkjum við hið sammannlega og breytum rétt? Velferð okkar er órjúfanlega tengd velferð annarra, við berum öll sameiginlega ábyrgð á framtíðinni. Ófriður, misskipting, hungursneyð, mengun og loftslagsbreytingar er staðreynd. Vandi sem lífsnauðsynlegt er að leysa til að tryggja framtíð barna okkar. Allra barna. Við eigum völina – flest – og frelsi til þess að leggja skerf af mörkum.

 

Katrín málar syni sína í þeim tilgangi að tjá ást, festa hana á myndflöt og varðveita til framtíðar. Synirnir þrír eru fulltrúar þess góða og fallega. Þeir eru oft ákveðnir og alvarlegir á svip. Það undirstrikar sterkan karakter barna, en speglar um leið brothætt sakleysi og varnarleysi þeirra og barna almennt. Varnarleysi sem oft er misnotað í harðneskjulegum og ómennskum heimi: Barnahermaður, barnaþrælkun, barnaníð, barnabrúður… Hvenær fær barn að vera bara barn? Þessum spurningum veltir listamaðurinn meðal annars upp sem andstæðu eigin „örugga“ heims.

 

Katrín Matthíasdóttir (f. 1967) hefur getið sér gott orð sem portrettmálari. Hún hlaut verðlaun í samnorrænu samkeppninni „Portræt Nu“ árið 2011 og hafði frumkvæði að myndlistarsýningunni Íslensk samtíðarportrett í Listasafninu á Akureyri 2014.

 

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com