51838885 2106747779616838 3900009490803589120 N

Valentínus í Midpunkt

Blásið verður til ástarfagnaðar á Valentínusardeginum í Midpunkt en síðast liðinn fimmtudag opnaði þar sýningin Þín eigin ást sem listakonurnar Eilíf Ragnheiður og Rakel Blom standa fyrir.
Milli 17 -20 þann 14. febrúar munu dyr ástarinnar standa opnar fyrir ástföngum, ástsjúkum og ástvinum og boðið verður upp á kvöldstund þar sem ástin er ríkjandi.

Ragnheiður: Við viljum bjóða gestum og elskendum að kíkja við á ástarsýninguna og eiga með okkur Rakel ástarstund. Við höfum breytt Midpunkt í stað ástarinnar með sýningunni okkar “Þín eigin Ást” sem mun standa til 2. Mars. Allskyns ástarlegt verður í gangi hjá okkur á ástardeginum allt frá ástvina spilun yfir í nostalgíska ást sem og ástargjörningur sem ég sjálf mun fremja.
Einnig verður hægt koma með dót frá gömlum elskhugum og gefa sýningunni eða fremja eigin gjörning til að losna undan þjáningu ástarinnar.

Sýningin Þín eigin ást snýst að margbreytileika ástarinnar, þær ýmsu birtingamyndir sem ástin hefur í daglegu lífi. Ástin getur iljað okkur um hjartarætur, komið okkur á óvart og leynst á óvæntum stöðum í líkamanum sem og á jörðinni.

Ástin er rómantísk
Ástin er sjálfselsk
Ástin er nostalgísk
Ástin er hversdagsleg
Ástin er þú og ég
Ástin er í Midpunkt

Ástin á sér margar hliðar. Það er unga ástin, fullorðna ástin og aldraða ástin milli kærustuparsins í unglingadeildinni, milli elskhuganna sem fundu sig í gegnum tinder, milli aldraðra hjóna komin yfir demantabrúðkaupið. Svo er það ástin á ungu nýfæddu barni, ástin á gömlum vin, ástin á hverfulum ketti eða tryggum hundi. Ástin á uppáhalds stólnum þínum, ástin á uppáhalds geisladisknum, ástin á fallegri náttúru og góðri list. Kærleikurinn til alls mannkyns og sjálfselskan.

Allt þetta og meira til getur fólgist í þessu eina marglaga orði. Ást. Gjörðinni að elska. Það mætti segja að þetta sé mikilmennskubrjálæði í einu orði. Og jafnvel mikilmennskubrjálæði fyrir tvær listkonur að takast á við hugmyndina um ástina í afmörkuðu hvítu 30 fermetra rými í Hamraborg. Engu að síður er það verkefnið sem Rakel Blom og Eilíf Ragnheiður hafa valið sér. Þetta stóra viðfang hafa þær skoðað frá ólíkum hliðum og efnistökum.

Eilíf Ragnheiður er lærður dansari sem sérhæfði sig í list í almenningsrýmum við háskólann í Gautaborg. Hún hefur unnið bæði með myndlist og dans síðustu ár Rakel Blom lærði textíl og fatahönnun við Otago Polytechnic í Nýja Sjálandi. Rakel hefur unnið til ýmissa viðurkenninga m.a. Overall Excellence og Directioanl Design verðlaunin hjá iD alþjóðasamkeppninni. Rakel blandar saman hinu gamla og nýja með samsetningu myndefna sem hún prentar á efni og hannar flíkur út frá. Henni finnst gaman að segja sögur með verkum sínum.

Midpunkt er menningarrými statt í Hamraborg 22 sem opnaði síðasta haust og sérhæfir sig í alþjóðlegri og nýlegri samtímalist. Sýningar Midpunkts eru styrktar af Kópavogsbæ.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com