30707846 1813891551989696 7413260934698762240 O

Útskriftarsýning meistaranema í myndlist og hönnun opnar í Gerðarsafni á laugardaginn kl. 14:00

Laugardaginn 28. apríl verður opnuð útskriftarsýning meistaranema í hönnun og myndlist frá Listaháskóla Íslands í Gerðarsafni, Kópavogi.

Á sýningunni má sjá afrakstur tveggja ára háskólanáms á meistarastigi þar sem hönnuðir og myndlistarmenn hafa fengið tækifæri til að þróa og styrkja rannsóknir sínar á viðkomandi fagsviðum.

Áhersla er lögð á skapandi og greinandi hugsun sem nýtist við framsækin verkefni á sviðum hönnunar og myndlistar á Íslandi.

Útskriftarnemendur í myndlist eru Andreas Brunner, Arnar Ómarsson, Clara Bro Uerkvitz, Einar Örn Benediktsson, Juliane Foronda, Juliette Frenay & Maria-Magdalena Ianchis.

Útskriftarnemendur í hönnun eru Andrés Julián León Cruz, Arjun Singh, Árdís Sigmundsdóttir, Guðrún Margrét Jóhannsdóttir & Michelle Site.

Viðburðir á sýningartímanum:

Lau. 28. apríl kl. 14
Opnun
Á opnun sýningarinnar verður lifandi dagskrá tengd sýningunni.

Fös. 4. maí kl. 17
Visual Tricks : modern art, military camouflage and animal mimicry
Didier Semin

Sun. 6. maí kl. 15
Leiðsögn með meistaranemum í myndlist

Þri. 8. maí kl. 17
Design Fiction Club
Max Mollon

Sun. 13. maí kl. 14-16
Tender Points: Vinnstofa um sársauka – Michelle Site kl. 14
Leiðsögn með meistaranemum í hönnun kl. 15

Frá sýningarstjóra:
Útskriftarsýning meistaranema í hönnun og myndlist er samsýning sem mynduð er úr tólf einkasýningum. Útskriftarverkefnin eru afurð rannsókna og sköpunarferlis hvers nemanda en þau verða þó ekki til í tómarúmi. Verkin spretta upp úr ákveðnum jarðvegi og í tengslum við umhverfi hvers og eins nemanda, hvort sem það er félagslegt, manngert eða náttúrulegt umhverfi. Útskriftarverkin eru því í senn sjálfstæðar einingar en að sama skapi kallast þau hvert á við annað í rýminu. Þau tengjast ýmist í gegnum sameiginlega eiginleika, það sem skilur þau að eða eitthvað þess á milli, sem skapar samtal og spennu á milli hugmynda, fagurfræði og nálgunar.

Í verkum myndlistarnema tvinnast saman og togast á vangaveltur um stuðning, endurspeglun, tilfærslur, hringrás og takmarkanir. Í verki Juliane Foronda verða skúlptúrar og strúktúrar, sem einna helst minna á grunnstoðir veggja, ekki aðeins að stuðningi í beinni merkingu orðsins heldur einnig andlegri stoð fyrir bæði manneskjur og hluti. Á meðan kannar Andreas Brunner tengsl okkar við marglaga nútíð í gegnum tilfærslur, afbyggingu og merkingarsköpun. Aftur á móti er leikið með mörk þess áþreifanlega og þess stafræna í innsetningu Arnars Ómarssonar, þar sem sífelld endurspeglun og samþætting á sér stað. Clara Bro Uerkvitz birtir í verki sínu hringrás sníkjudýrs í umhverfi mannsins sem mætir kvenlegum krafti í vörslu mannsandans. Þá verður líkaminn að endurspeglun og vörpun umhverfis síns í verkum Juliette Frenay þar sem líkaminn tekur á sig það form sem ákveðin rými og hlutir kalla eftir. Í verki Mariu-Magdalenu Ianchis birtist óræður heimur skírdreymis þar sem endimörk ímyndunaraflsins eru einu takmarkanirnar. Að lokum afbyggir Einar Örn Benediktsson línuteikninguna í verki sínu og leysir hana upp í hvísl, sem rífur gagnsæi þagnarinnar.

Í útskriftarverkum hönnunarnema tengjast og kallast á rannsóknir og tilraunir til endursköpunar kerfa, hönnunar okkar sjálfra og endurhugsun á þeim möguleikum sem búa í umhverfi okkar. Michelle Site skapar tjáningarkerfi sársauka sem byggir á leik sem samskiptamáta. Á meðan vísar Guðrún Margrét Jóhannsdóttir í viðleitni mannsins til að hanna og breyta umhverfi sínu í fjarheilun þar sem manneskjan sjálf verður viðfangsefni endurhönnunar. Í verkefni Árdísar Sigmundsdóttur er hönnun beitt til að umbreyta göngu í náttúru í samtal og samskipti. Aftur á móti verður mengun og rusl að hráefni í sköpun í rannsókn Arjun Singh sem umbreytir neikvæðum afurðum mannaldarinnar. Loks vísar Andrés Julián León Cruz í skapandi eiginleika gervigreindar og algóriþma með sjónrænni framsetningu á gengi rafmynta þar sem upplýsingar umbreytast í náttúruleg form og hljóðmyndir.

Hvert verk fyrir sig hverfist um ólíkar hugmyndir, vangaveltur og íhugunarefni sem hafa skarast og tengst í gegnum skapandi ferli nemendanna. Á útskriftarsýningunni eru þessar ólíku raddir, sem mætast innan hvers verks, útvíkkaðar í samtali milli verka. Á samsýningu sem mynduð er úr einkasýningum gefa fagurfræði, inntak, nálgun og vísanir hvers verks óþrjótandi möguleika á túlkun, merkingarsköpun og tengingum.

Brynja Sveinsdóttir
Sýningarstjóri

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com