79764079 2623654141084589 3926090293161492480 O

Útskriftarsýning Ljósmyndaskólans 10.janúar 2020, kl.17

Útskriftarsýning Ljósmyndaskólans 2020

Föstudaginn 10. janúar kl. 17.00 opnar útskriftarsýning Ljósmyndaskólans að Hólmaslóð 6.

Að þessu sinni útskrifast þau Anna Margrét Árnadóttir, Gissur Guðjónsson, Hjördís Eyþórsdóttir, Hrafna Jóna Ágústsdóttir, Ívar Örn Helgason og Linda Björk Sigurðardóttir úr fimm anna námi í skapandi ljósmyndun.
Viðfangsefni og aðferðir nemenda spanna breitt svið, eftirtektarvert er að sjá hvernig útskriftarnemendurnir takast á við ólík málefni út frá mismunandi forsendum, listrænni sýn og fagurfræði.

Á veggjum sýningarsalarins hvíla svarthvítar ljóðrænar ljósmyndir sem tjá á einlægan og tilfinningaþrunginn hátt sorgarferli eftir fósturmissi og einnig blákalda skrásetningu á hnignun sveitaþorps sem eitt sinn var blómstrandi kartöflustórveldi. Úr íslenskum raunveruleika færum við okkur yfir í sviðsettar senur úr sögu um konu sem dreymir um blóðuga hefnd. Manngert landslag kitlar með hlutleysi sínu á meðan í öðru verki er settur fram fjársjóður mynda sem safnast höfðu saman á rótlausu flakki listakonunnar um lífið. Að lokum fær áhorfandinn að verða vitni að samtali ljósmyndara við minningar sínar og hvernig hún reynir að takast á við sársaukafullt áfall.

Sýningin tengist inn í Ljósmyndahátíð sem að þessu sinni er haldin í janúar 2020. Útskriftarnemar skólans verða á staðnum og leiða gesti um sýninguna þá daga sem hún stendur yfir.

Opunartími:
Lau. 11/1 12.00 -18.00
Sun. 12/1 12.00 -18.00
Þri. 14/1 12.00 – 18.00
Mið. 15/1 12.00 -18.00
Fim. 16/1 12.00 -18.00
Fös. 17/1 12.00 -18.00
Lau. 18/1 12.00 -18.00
Sun. 19/1 12.00 – 18.00

Tengiliður útskriftarhópsins er Hjördís Eyþórsdóttir. Hægt er að senda allar fyrirspurnir á hjordishalla@gmail.com eða í síma 869-2737.

www.annamargret.com
www.hjordiseythors.com
www.lindasig.is
www.ivarorn.com
www.hrafna.squarespace.com

Anna Margrét Árnadóttir
Perlum skreytt skammbyssa og stórhættulegir drápshælar birtast í The Bunny Diaries. Með handfylli af draumkenndum en óhugnanlegum ljósmyndum og litlum textabrotum leikur Anna Margrét sér með að setja hryllilegar senur í uppljómaðan búning og býður áhorfendum að upplifa heiminn sem hún hefur skapað, misheppnaða ástarsögu um hefnd og eftirvæntingar.

Gissur Guðjónsson
Í verki Gissurs Guðjónssonar, Svæði, bregður fyrir óskilgreindum stöðum þar sem safnast hafa saman ummerki um tilvist mannsins. Gissur nýtir sér þennan efnivið og myndar úr honum sitt eigið landslag og mótar það með því að brengla sjónarhornið með aðferðafræði „photomapping“. Svæðin sem Gissur myndar virðast hafa fyrir hreina tilviljun orðið að tímabundnum griðarstað fyrir hluti sem fólk sér ekki not fyrir lengur.

Hjördís Eyþórsdóttir
Gersemar sem leynast í hversdagsleikanum eru okkur oft huldar. Ljósmyndirnar í verkinu Put all our Treasures Together voru teknar yfir tímabil sem einkenndist af miklu rótleysi og flakki, myndir sem söfnuðust saman í laumi samhliða daglegu lífi Hjördísar Eyþórsdóttur yfir langan tíma. Atburðir sem virðast í fyrstu ómerkilegir reynast fjársjóður þegar horft er til baka. Aðeins fyrir tilstilli fjarlægðarinnar sem skapast þegar tíminn líður fáum við aðra sýn á hlutina.

Tilgang eða áfangastað

Hrafna Jóna Ágústsdóttir
Tíminn læknar ekki öll sár. Minningabrot sem spegla kaótískan hugarheim þar sem á takast röklausar hugsanir og vonleysi er viðfangsefni verksins Stráðu salti á mig eftir Hröfnu Jónu Ágústsdóttur. Í verkinu heyrist endurómun af því umhverfi sem varð á vegi ringlaðrar konu í eftirköstum áfalls. Verkið er leið Hröfnu til að takast á við fortíðina með því að strá salti í sárin, meðtaka sársaukann og túlka hann á listrænan hátt.

Ívar Helgason
Í Þykkvabæ fækkar fólki með hverju árinu og húsin drabbast niður. Horfin er sú sýn að traktor sé á hverju horni og kartöflubændur í óða önn að undirbúa næstu uppskeru. Ívar Örn dregur í verki sínu, Þúsund ára sveitaþorp, upp mynd af kartöflubænum í samtímanum. Þar hefur fólksfækkun verið gríðarleg síðustu árin sem skilur eftir sig tómarúm og yfirgefin hús. Hægt er að ráfa um bæinn tímunum saman án þess að verða var við nokkurn, líkt og að þar hafi tíminn staðið í stað. Í norðri blasa við okkur fjallgarðar en þegar litið er til suðurs sjáum við auðnina og flatlendið.

Linda Björk Sigurðardóttir
Verkið 12 vikur er listræn túlkun á sorgarferli eftir fósturmissi. Linda notar ljósmyndun til að túlka tilfinningar sínar og hugarástand í gegnum erfiða lífsreynslu sem alltof margir þekkja af eigin raun. Um leið og hún opnar eigin hugarheim skapar hún vettvang fyrir umræðu um sameiginlega reynslu fjölda kvenna sem gengið hafa í gegnum sömu reynslu bítandi á jaxlinn, þar sem venjur og viðhorf gefa ekki svigrúm til að tjá tilfinningar. Sorgin er plássfrek, hún ristir djúpt og hverfur ekki með því að hunsa hana.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com