MHR

ÚTHVERFI útisýning Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík opnar 17. maí 2019

HJÓLIÐ er sýningaröð sem Myndhöggvarafélagið í Reykjavík setur upp í opinberu rými þar sem listaverk þræða sig eftir hjóla- og göngustígum borgarinnar. Sýningin ÚTHVERFI er annar áfangi í röð fimm sumarsýninga sem settar verða upp í aðdraganda fimmtíu ára afmælis félagsins árið 2022.

Listamenn : Anssi Pulkkinen, Arnar Ásgeirsson, Baldur Geir Bragason, Halldór Ásgeirsson, Hallsteinn Sigurðsson, Kathy June Clark, Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir, Ósk Vilhjálmsdóttir og Sindri Leifsson.

Sýningin opnar í Gerðubergi föstudaginn 17. maí n.k. kl. 17

Titill sýningarinnar ÚTHVERFI vísar í staðsetningu hennar í Breiðholtshverfi sem er fyrsta skipulagða úthverfi Reykjavíkur. Breiðholtið er fjölmennasta og fjölbreyttasta íbúahverfi borgarinnar. Þar má finna flest einbýlishús í einu hverfi í Reykjavík, þar eru flestar íbúðir í fjölbýli og þar býr líka hæsta hlutfall íbúa af erlendum uppruna. Mismunandi menningarheimar auka á fjölbreytileikann og auðga mannlífið en manngert og náttúrulegt umhverfi hverfisins ásamt sögu þess myndar umgjörð um daglegt líf þeirra sem þar búa. Á sýningunni ÚTHVERFI verður litið til þess hvernig sameiginlegt rými hverfisins samþættir menningarlegar og félagslegar þarfir íbúanna. Listamennirnir á sýningunni líta til sögu Breiðholtshverfisins, skoða mörk hins manngerða og náttúrulega umhverfis auk samstarfs við íbúa hverfisins. Sýningin stendur frá 17. maí til 25. ágúst 2019.

Sýningarstjórar:

Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com