Hamskipti

Útgáfuhóf og sýning í Nesstofu

Út er komin bókin Hamir eftir myndlistarmanninn Önnu Jóa. Fimmtudaginn 17. september, kl. 17 býður Anna til útgáfuhófs samhliða opnun sýningarinnar „Fjörufundir“ í Nesstofu, Seltjarnarnesi.  

Verkin í bókinni Hamir fjalla um klæði og hami hvers konar og tengsl þeirra við híbýli og tímans rás. Hugsanir listamannsins um tímann og staði fléttast saman við gerð myndanna og rata á blað sem ljóðrænir textar sem í víðari skilningi fjalla um sköpunarferlið og um myndbreytingareðli umhverfis og hugarheima. Textarnir birtast einnig í enskri þýðingu Söruh Brownsberger og í bókinni er eftirmáli eftir Jóhannes Dagsson á báðum málunum. Verk úr bókinni verða til sýnis í Nesstofu ásamt nýlegum verkum Önnu sem innblásin eru af ströndinni og ummerkjum um sérstök tengsl menningar og náttúru sem finna má í fjöru. Með sýningunni er þannig óbeint efnt til samtals við náttúrulegt umhverfi Nesstofu.

Eftir opnunardaginn verður sýningin opin föstudaginn 18. sept., laugardaginn 19. sept. og sunnudaginn 20. sept. kl. 13-17. Aðgangur er ókeypis. Bókin Hamir verður til sölu á staðnum. 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com