Image006

Útgáfa veglegrar listaverkabókar Á eintali við tilveruna – Eiríkur Smith

Hafnarborg  kynnir með stolti útgáfu listaverkabókar um listmálarann Eirík Smith sem gefin var út í tengslum við sýninguna Á eintali við tilveruna sem nú stendur yfir í sölum safnsins.

Bókin er vegleg og gerir margbreytilegum ferli Eiríks Smith skil í máli og myndum. Höfundar texta bókarinnar eru Aðalsteinn Ingólfsson, Heiðar Kári Rannversson og Aldís Arnardóttir ásamt Ólöfu K. Sigurðardóttur, fyrrverandi forstöðumanni Hafnarborgar, sem jafnframt er sýningarstjóri sýningarinnar og ritstjóri bókarinnar.

Ferill Eiríks Smith (f. 1925) er í senn langur og margbreytilegur. Eiríkur hefur tekist á við málverkið sem tjáningarform og eftir hann liggja verk sem bera vitni um einstök tök á jafn ólíkum viðfangsefnum og strangflatarlist, tjáningarríku abstraktmálverki og raunsæisverkum þar sem maðurinn er oft í forgrunni en landið og mannanna verk mynda magnþrungna umgjörð. Aðferðir hans og afstaða hafa þannig tekið breytingum bæði í takt við tíðarandann og leit hans eftir nýjum leiðum til listrænnar tjáningar.

Sýningin Á eintali við tilveruna er fimmta og síðasta sýningin í sýningarröð sem Hafnarborg hefur staðið fyrir síðan árið 2010 þar sem kynnt hafa verið fimm ólík tímabil á löngum og fjölþættum ferli Eiríks.

Bókin, sem fæst í safnbúð Hafnarborgar og öllum helstu bókabúðum, kemur út með fimm mismunandi kápum, með mynd af málverki frá sitthvoru tímabilinu hver. Kaupendur geta þá valið sér kápu eftir persónulegum smekk hvers og eins.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com