
UNIVERSAL SUGAR – sýningar Hildigunnar Birgisdóttur í Vestmannaeyjum og Garðabæ
Laugardaginn 16. febrúar opna sýningar Hildigunnar Birgisdóttur
UNIVERSAL SUGAR
39.900.000 ISK
11.900.000 ISK
í Vestmannaeyjum kl. 14 og í Garðabæ kl. 17.
Sýningarnar standa fram til 28. febrúar og eru opnar alla daga kl. 14 – 17.
Nánari upplýsingar um sýningarstaðina er að finna á heimasíðu safnsins www.listasafnasi.is
Hildigunnur Birgisdóttir er annar listamaðurinn sem velst til þáttöku í nýrri sýningaröð Listasafns ASÍ þar sem sýnd eru nýjustu verkin í eigu safnsins. Fyrstur í röðinni var Sigurður Guðjónsson með sýningarnar INNLJÓS í Hafnarfirði 2017 og á Blönduósi 2018. Sýningar Hildigunnar opna samhliða og standa jafnlengi í Garðabæ og Vestmannaeyjum og bera sama nafn á báðum stöðum. Viðfangsefni sýninganna, sem við fyrstu sýn virðast mjög áþekkar, endurspegla á margan hátt samfélagið á hvorum stað fyrir sig og sama má segja um húsnæðið sem þær hýsir. UNIVERSAL SUGAR í Vestmannaeyjum og Garðabæ eru í raun sama sýningin, birtingarmyndir hennar eru óteljandi en hér birtast tvær þeirra. Umgjarðir sýninganna auka enn á áhrifin, tvö mjög ólík rými frá mismunandi tímum hvort með sína sögu.
Í verkum sínum hefur
Hildigunnur rannsakað flókin kerfi með notkun hrekklausra eða jafnvel
barnslegra tenginga. Hún leikur sér með spennuna sem myndast getur milli
þarfar okkar til að útbúa óhlutbundin þekkingakerfi og líkamlegra þolmarka
skynkerfa okkar. Verk Hildigunnar afhjúpa annmarka, sérvisku og
fjarstæðukennd atriði sem finna má í sköruninni á milli hugsjónar og
mannlegra skilningskerfa. Slíkur ágangur kemur sér ekki bara vel, heldur
liggur hann til grundvallar verkum Hildigunnar, og gerir áhorfandann óvænt að
miðju alheimsins.
Hildigunnur Birgisdóttir (f. 1980) útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands
árið 2003. Verk hennar hafa verið sýnd í Listasafni Reykjavíkur, Kling
& Bang, Nýlistasafninu, Annaellegallery í Stokkhólmi, Gallerí i8 og nú
síðast á tvíæringnum Stöðum á sunnanverðum Vestfjörðum.
Listasafn ASÍ vinnur nú að því að koma sér upp nýjum sal og á meðan eru
sýningar safnsins á eldri og nýrri verkum haldnar í samstarfi við stofnanir og
samtök víðsvegar um landið. Kallað er árlega eftir tillögum frá
myndlistarmönnum sem vilja taka þátt í nýjustu sýningarröðinni og eitt verkefni
valið hverju sinni. Sýningarstaðirnir eru valdir í samvinnu við listamennina
sem hlut eiga að máli hverju sinni og eru til skiptis á höfuðborgarsvæðinu og í
öðrum landshlutum. Samhliða sýningum á nýjustu verkunum í eigu safnsins eru
haldin listnámskeið fyrir leik- og grunnskólabörn þar sem unnið er með elstu
verkin í safneigninni.
Listráð Listasafns ASÍ 2017-20 skipa sýningarstjórarnir Dorothée Kirch og Heiðar Kári Rannversson auk Elísabetar Gunnarsdóttur safnstjóra.
Ljósmyndir: Vigfús Birgisson
……….
Listasafn ASÍ var stofnað árið 1961. Safnið er eign Alþýðusambands Íslands og starfar samkvæmt reglugerð samþykktri af miðstjórn þess. Iðnrekandinn og bókaútgefandinn Ragnar Jónsson í Smára lagði grundvöllinn að listasafninu með því að gefa ASÍ málverkasafn sitt – um 120 myndir – eftir marga af þekktustu myndlistarmönnum þjóðarinnar. Ósk Ragnars var sú að stofnað yrði listasafn sem kæmi listinni á framfæri við vinnandi fólk í landinu. Listasafn ASÍ hefur alla tíð starfað með þetta að leiðarljósi og hefur m.a. sérhæft sig í myndlistarsýningum sem settar eru upp á vinnustöðum og í stofnunum víða um land. Safnið hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun þess fyrir tæpum sextíu árum og geymir nú um 4000 verk.