Siða- og verklagsreglur SÍM

Siðareglur stjórnar SÍM og fulltrúa SÍM í stjórnum, nefndum og ráðum.

1. gr. Virðing

Við sinnum störfum okkar með hagsmuni myndlistarmanna og félagsmanna SÍM að leiðarljósi og stöndum vörð um heiður myndlistarinnar.

2. gr. Fordæmi

Við stuðlum að framgangi þessara reglna og styðjum við þær með því að ganga á undan með góðu fordæmi

3. gr. Heiðarleiki

Við gegnum störfum okkar af trúmennsku og heiðarleika. Við greinum frá öllum persónulegum hagsmunum og hagsmunaárkestrum sem geta haft áhrif á störf okkar í þágu félagsins. Við víkjum úr nefndum eða af nefndarfundum ef slíkir hagmunaárekstrar eru fyrir hendi.

4. gr. Ábyrgð

Við vinnum störf okkar af samviskusemi og öxlum ábyrgð á verkum okkar. Ef við sætum opinberri rannsókn, sem skaðað geta hagsmuni félagsins, víkjum við sæti þar til málið er til lykta leitt.

5. gr. Gagnsæi

Við höldum í heiðri grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu í störfum okkar. Við eigum að geta rökstutt ákvarðanir okkar og látið lögmæt og málefnaleg sjónarmið ráða för.

6. gr. Hlutlægni

Við gætum þess að sýna hlutlægni og tökum ákvarðanir á grundvelli verðleika, þ.m.t. þegar við komum opinberlega fram, gerum samninga eða tökum afstöðu til einstakra mála. Við látum skyldleika, vensl, vinskap eða eigin hagsmuni aldrei ráða ákvörðun okkar í störfum fyrir SÍM.

7. gr. Réttlæti

Við höfum jafnrétti að leiðarljósi og vinnum gegn fordómum og mismunun vegna kyns, þjóðernis, trúarbragða, aldurs, kynferðis, skoðana, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti.

——————————-

Verklagsreglur stjórnar SÍM.

Í 11. grein laga SÍM segir: Stjórn SÍM ber ábyrgð á daglegum rekstri sambandsins á milli aðalfunda og geri samninga fyrir hönd félagsins. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra sambandsins. Ennfremur skipar eða tilnefnir stjórn í ráð og nefndir fyrir hönd sambandsins.

Verklagsreglur þessar eru ætlaðar stjórnarmönnum SÍM, til að tryggja gagnsæi, fagmennsku og lýðræði í starfi stjórnarliða og varamanna í stjórn SÍM.

1. Stjórn SÍM skal ávallt gæta þess við skipan eða tilnefningar félagsmanna í nefndir, stjórnir og ráð að lögum félagsins sé fyllt og jafnframt skal tekið mið af siða- og verklagsreglum félagsins.

2. Allir fullgildir félagsmenn í SÍM hafa jafnan möguleika til setu í nefndum og stjórnum þar sem SÍM tilnefnir fulltrúa. Félagsmenn geta óskað eftir setu í nefndum og ráðum, en jafnframt getur stjórn SÍM auglýst eftir fulltrúum. Félagsmaður er fullgildur meðlimur SÍM ef hann er skuldlaus við félagið skv. 13. gr. laga SÍM.

3. Stjórn SÍM skal gæta jafnræðis við skipan í nefndir, stjórnir og ráð og skal að öllu jöfnu ekki skipa sömu manneskju til setu í fleiri en einni nefnd í einu. Gildir það jafnt um aðalmenn og varamenn.

4. Fulltrúar stjórnar SÍM í nefndum, stjórnum og ráðum ættu alla jafnan ekki að sitja lengur en tvö tímabil samfellt í sömu nefnd og þá aðeins ef lög viðkomandi stofnunar býður svo.

5. Stjórn SÍM getur sett á laggirnar nefndir um málefni er taka þarf á sérstaklega og getur löglega boðaður félagsfundur einnig óskað eftir slíku.

6. Stjórnarliðum SÍM ber að mæta á alla boðaða fundi sambandsins þ.e. stjórnarfundi, aðalfundi, sambandsráðsfundi og félagsfundi. Boða skal forföll tímanlega, svo boða megi varamann.

7. Stjórnarliðar SÍM ber að vinna með gagnsæi og lýðræði í huga í öllu starfi sínu fyrir samtökin og ber að gæta meðalhófs í sinni vinnu fyrir samtökin.

8. Stjórnarliðar skulu ætíð hafa í huga að málefni stjórnarfunda SÍM eru bundin trúnaði.

9. Allir félagsmenn SÍM sem starfa fyrir félagið í stjórn þess, stjórnarliðar og varamenn, verða að vera þess minnugir að þeir starfa í nafni og umboði SÍM og skulu fylgja lögum sem og siða- og verklagsreglum sambandsins.

10. Sjá einnig hlutverk stjórnar í 4., 7. og 10. grein laga SÍM.

——————————-

Verklagsreglur fulltrúa SÍM í nefndum, stjórnum og ráðum.

Verklagsreglur þessar eru ætlaðar þeim félagsmönnum SÍM, sem skipaðir eða tilnefndir hafa verið af stjórn SÍM til setu í nefndum stjórnum og ráðum.  Reglurnar eru hugsaðar til að tryggja gagnsæi, fagmennsku og lýðræði í starfi félagsmanna SÍM á vegum sambandsins.

1. Stjórn SÍM skipar eða tilnefnir fulltrúa sambandsins í nefndir, stjórnir og ráð. Ávallt skal gæta þess við skipan eða tilnefningar að lögum SÍM sé fyllt og jafnframt skal tekið mið af siðareglum sambandsins.

2. Allir fullgildir félagsmenn í SÍM hafa jafnan möguleika til setu í nefndum og stjórnum þar sem SÍM tilnefnir fulltrúa. Félagsmenn geta óskað eftir setu í nefndum og ráðum, en jafnframt getur stjórn SÍM auglýst eftir fulltrúum. Félagsmaður er fullgildur meðlimur SÍM ef hann er skuldlaus við félagið skv. 13. gr. laga SÍM.

3. Fulltrúar stjórnar SÍM í nefndum, stjórnum og ráðum ættu alla jafnan ekki að sitja lengur en tvö tímabil samfellt í sömu nefnd og þá aðeins ef lög viðkomandi stofnunar býður svo.

4. Stjórn SÍM skal gæta jafnræðis við skipan í nefndir, stjórnir og ráð og skal að öllu jöfnu ekki skipa sömu manneskju til setu í fleiri en einni nefnd samtímis. Gildir það jafnt um aðalmenn og varamenn.

5. Listi yfir nefndir, stjórnir og ráð sem SÍM tilnefnir eða skipar í skal vera aðgengilegur á heimasíðu SÍM, ásamt skilgreindu hlutverki þeirra og starfstíma.

6. Fulltrúar SÍM í nefndum, stjórnum og ráðum skulu vera meðvitaðir um mikilvægi upplýsingastreymis til SÍM. Er þeim gert að skila fundargerðum til félagsins og skal þeim haldið til haga á skristofu SÍM. Stjórn SÍM getur kallað fulltrúa sína til fundar til upplýsingar um nefndarstörf sín.

7. Nýr nefndarmaður skal fá sendar síðustu fundargerðir frá viðkomandi nefnd, til undirbúnings og kynningar.

8. Allir sem eru skipaðir eða tilnefndir af SÍM í stjórnum, nefndum og ráðum verða að vera þess minnugir að þeir starfa í nafni og umboði stjórnar SÍM og skulu fylgja lögum, siða- og verklagsreglum sambandsins.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com