Samkeppnisreglur sím

1 gr. Útboðsaðili
Samkeppni getur verið á vegum einstaklinga eða lögaðila. Um skipulag og framkvæmd samkeppna skal hafa samráð við stjórn SÍM.

2. gr. Tilgangur samkeppni
Tilgangur samkeppni er að fá fram tillögu að verki sem best er fallin til framkvæmdar.

3. gr. Tilhögun samkeppni
Samkeppni getur verið almenn eða lokuð eftir eðli og umfangi verkefnisins.

Almenn samkeppni er opin öllum myndlistarmönnum sbr. 4 gr. Í almennri samkeppni er gert ráð fyrir að þátttakendur skili inn frumdrögum ásamt stuttri lýsingu á hugmynd. Að lokinni slíkri samkeppni getur dómnefnd valið eina tillögu til útfærslu, eða fleiri tillögur til þátttöku í lokaðri samkeppni svo fremi að slíkt sé tilgreint í keppnislýsingu.

Lokuð samkeppni er samkeppni fárra myndlistarmanna sem valdir hafa verið af dómnefnd, með eða án forvals.

  1. Lokuð samkeppni án forvals fer þannig fram að dómnefnd velur ákveðinn fjölda myndlistarmanna til þess að vinna tillögu að verki gegn ákveðinni þóknun.
  2. Lokuð samkeppni  með forvali fer þannig fram að auglýst er eftir listamönnum til þátttöku í forvalinu. Sérstök forvalsefnd velur þá úr innsendum umsóknum ákveðinn fjölda myndlistarmanna til þess að vinna tillögu að verki gegn ákveðinni þóknun.

4.gr. Þátttakendur
Í keppnislýsingu skal koma fram hverjir rétt hafi til þátttöku. Hópi eða lögaðila er því aðeins heimil þátttaka að einstaklingur sem sjálfur á þátttökurétt sé ábyrgur fyrir þátttöku hópsins eða lögaðilans.

Þátttaka er óheimil dómnefndarmönnum, forvalsnefnd og þeim sem eru þessum aðilum nátengdir, svo og þeim sem dómnefnd leitar til um aðstoð eða sérfræðilegt álit. Þyki vafi leika á um þátttökurétt skal trúnaðarmaður leita umsagnar stjórnar SÍM.

5. gr. Keppnislýsing
Útboðsaðili skal semja keppnislýsingu í samráði við trúnaðarmann, þar sem gerð er grein fyrir viðfangsefninu og hverjir hafi rétt til þáttöku. Einnig skal kveðið á um réttindi og skyldur útboðsaðila, dómnefndar, þátttakenda og SÍM.

Keppnislýsing skal vera yfirfarin og samþykkt af trúnarðarmanni SÍM og stjórn SÍM.

Æskilegt er að keppnislýsing greinist í meginkafla, boð til samkeppni, upplýsingar um útboðsaðila (nafn o.fl.), tilhögun samkeppni, tilgang og viðfangsefni. Gera þarf skýra grein fyrir þeim forsendum sem miðað skal við og skal markmiði, tímasetningum og innihaldi verkefnis vera vel og ítarlega lýst.

6.gr. Dómnefnd
Þegar samkeppnislýsing liggur fyrir skal skipa dómnefnd og skal fjöldi dómnefndarmanna ávallt standa á oddatölu. Í þriggja manna dómnefnd skal einn dómnefndarmaður tilnefndur af SÍM. Í stærri dómnefndum skulu tveir dómnefndarmanna hið fæsta tilnefndir af stjórn SÍM. Aðra tilnefnir útboðsaðili. Dómnefndarmenn kjósa formann úr sínum hópi. Formaður boðar fundi, sér um fundarstjórn og heldur utan um niðurstöður funda. Hver dómnefndarmaður fer með eitt atkvæði. Til að ákvörðun dómnefndar sé gild þarf samþykki meiri hluta hennar. Falli atkvæði jafnt sker atkvæði formanns úr.

Þegar um er að ræða samkeppni með forvali skal skipa tvær dómnefndir og skal önnur annast forvalið en hin lokaða hluta samkeppninnar.

7.gr. Trúnaðarmaður
Stjórn SÍM skipar trúnaðarmann sem með þagnarskyldu annast samskipti milli útboðsaðila, dómnefndar, forvalsnefndar og þátttakenda. Trúnaðarmanni ber að gæta fyllsta hlutleysis og trúnaðar í öllum störfum sínum samanber siðareglur SÍM.

8.gr. Nafnleynd

Samkeppni skal ávallt fara fram með nafnleynd keppenda þar til dómnefnd hefur lokið störfum. Í þessu skyni skulu tillögur einkenndar með dulnefni eða talnaröð og skal nafnmiði fylgja í innsigluðu umslagi merktu á sama hátt. Á nafnmiða skal tilgreina hver eigi höfundarrétt að tillögunni.

9. gr. Kostnaður
Útboðsaðili greiðir allan kostnað af framkvæmd samkeppni. Upphæð verðlaunafjárhæðar, þátttökuþóknunar, þóknunar trúnaðarmanns ásamt þóknun til SÍM, skal samþykkt af stjórn SÍM.

Í lokaðri samkeppni skal hverjum hinna boðnu þátttakenda ákveðin sama þóknun. Að auki kann að vera um verðlaunafjárhæð að ræða sem úthlutað er. Óheimilt er að skipta verðlaunum nema útboðsaðili hafi áskilið sér rétt til þess í keppnisgögnum og auglýsingu. Frávik frá verðlaunafjárhæð og þóknun sem fram kemur í keppnislýsingu eru óheimil nema fyrir liggi samþykki stjórnar SÍM.

Tjón á tillögum er á ábyrgð útboðsaðila.

10. gr. Dómnefndarstarf
Dómnefndarstarf er trúnaðarstarf og er dómnefnd bundin þagnarskyldu um allt sem varðar samkeppnina. Að jafnaði skulu dómnefndarmenn ásamt trúnaðarmanni SÍM einir sitja fundi dómnefndar, en dómnefnd er heimilt að kalla til sín sérfræðilega ráðunauta á einstaka fundi ef þurfa þykir þegar tillögur eru metnar. Eru þeir einnig bundnir þagnarskyldu um allt sem varðar samkeppnina. Dómnefnd ber að gæta fagmennsku, sanngirni og jafnræðis í umfjöllun sinni. Bóka skal allar samþykktir og sératkvæði.

Dómnefnd skal vísa þeim tillögum frá sem ekki hefur verið skilað á tilsettum tíma, ekki fullnægja skilyrðum keppnislýsingar um nafnleynd eða í vantar veigamikla þætti sem ætlast er til að gerð sé grein fyrir.

Gögn umfram þau sem um er beðið í keppnislýsingu koma ekki til mats af hálfu dómnefndar.

Tillögur sem í mikilvægum atriðum víkja frá veigamiklum kröfum í keppnislýsingu má kaupa en ekki verðlauna.

11.gr. Álit dómnefndar
Dómnefnd skal fjalla um allar tillögur sem fullnægja skilyrðum keppnislýsingar.

Dómnefnd skal skila skriflegriu áliti til trúnaðarmanns, þar sem úrskurður hennar er rökstuddur. Þar skal koma fram almenn umsögn sem tekur mið af fagurfræðilegum, tæknilegum og fjárhagslegum atriðum, umhverfisþáttum og úthlutun verðlaunafjárins. Niðurstaða dómnefndar er endanleg.

12.gr. Opnun nafnmiðaumslaga

Nafnmiðaumslögin má ekki opna fyrr en niðurstaða er fengin og dómnefnd hefur undirritað álitsgerð sína. Leiði nafnmiði í ljós að höfundur hafi samkvæmt keppnislýsingu ekki átt rétt til þátttöku í keppninni kemur hann ekki til álita þegar verðlaunum eða viðurkenningu er úthlutað.

13.gr. Sýning
Útboðsaðila ber að kynna niðurstöðu samkeppni opinberlega. Þegar úrslit samkeppni hafa verið birt skal útboðsaðili hafa allar tillögurnar aðgengilegar eða til sýnis almenningi eigi skemur en 8 daga. Á sýningu skal álitsgerð dómnefndar vera tiltæk ásamt fylgigögnum. Stjórn SÍM er einnig heimilt að halda sýningu á tillögunum. Samkeppnistillögur skulu sendar höfundum að sýningu lokinni, þeim að kostnaðarlausu.

14.gr. Birting
Opinber birting tillagnanna í tengslum við samkeppnina er heimil. Geta skal nafns höfundar.

15. gr. Eignarréttur
Tillöguhöfundar eiga allan höfundarrétt að tillögum sínum samanber Höfundalög.

Um sex mánaða skeið eftir lyktir samkeppni, eða annan tíma sem ákveðinn kann að vera í keppnislýsingu, á útboðsaðili forgang að notkunarrétti að verðlaunuðum tillögum.

Útboðsaðili hefur rétt til þess að nota heildarniðurstöður samkeppninnar við frekari vinnu að samkeppnisverkefninu, enda brjóti það ekki í bága við gildandi íslenska löggjöf um höfundarétt.

16. gr. Samningur
Þegar fyrir liggur að ákveðin tillaga verður framkvæmd gera útboðsaðili og höfundur tillögunnar með sér samning um áframhaldandi framvindu verkefnisins. Sé samningur ekki gerður innan settra tímamarka, sbr. 15. gr. er tillöguhöfundi frjálst að ráðstafa tillögu sinni að vild.

17. gr. Vinna að verkefni að lokinni samkeppni
Hafi höfundur tillögu sem dómnefnd hefur mælt með til frekari úrvinnslu eða framkvæmdar ekki nægileg föng eða aðstæður til þess að annast framhaldsvinnu í tengslum við samkeppnistillöguna, skal honum falið að vinna það í samvinnu við annan fagmann sem hann velur í samráði við útboðsaðila. Dómnefndarmanni og trúnaðarmanni er óheimilt að hafa milligöngu þar um eða taka verkefnið að sér.

Telji útboðsaðili að samkeppni lokinni að sérstakar ástæður séu til að hafa annan hátt á en dómnefnd mælti með kemur það til greina að höfðu samráði við stjórn SÍM. Með sérstökum ástæðum er átt við aðstæður eða atriði sem dómnefnd var ókunnugt um er hún kvað upp úrskurð sinn.

18. gr. Ágreiningur
Rísi ágreiningur um framkvæmd samkepnnisreglna SÍM skal leitast við að ná sáttum fyrir tilstilli sáttamanns sem aðilar að málinu koma sér saman um að skipa. Náist ekki lausn með þeim hætti skal málinu skotið til úrlausnar gerðardóms sem skipaður skal einum gerðardómsmanni skipuðum af stjórn SÍM, öðrum skipuðum af útboðsaðila en viðkomandi  héraðsdómari skal skipa oddamann sem jafnframt verði formaður gerðardóms nema annað sé tekið fram í keppnislýsingu.

Gerðardómur úrskurðar jafnramt um hvor málsaðila skuli bera kostnað við gerðardóminn í hverju máli og hafi til hliðsjónar reglur eml nr. 91/1991, XXI kafla laganna

 

Samkeppnisreglur SÍM voru samþykktar með breytingum 2. apríl 2014

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com