Lög

SAMBANDS ÍSLENSKRA MYNDLISTARMANNA

með breytingum samþykktum á aðalfundi í mars 2013.

1. grein
Samband íslenskra myndlistarmanna, SÍM, er hagsmuna- og stéttarfélag myndlistarmanna.

2. grein
Skrifstofa og varnarþing er í Reykjavík.

3. grein
Tilgangur og markmið Sambands íslenskra myndlistarmanna er:
a) að efla samtök myndlistarmanna og vera málsvari allra myndlistarmanna og samningsaðili þeirra.
b) að bæta kjör og starfsgrundvöll myndlistarmanna, gæta hagsmuna þeirra og réttar.
c) Samband íslenskra myndlistarmanna hlutast ekki til um listastefnur, stjórnmálaskoðanir eða trúarbrögð.

4. grein
Samband íslenskra myndlistamanna er heildarsamtök myndlistarmanna á Íslandi.

Félagar í Félagi íslenskra myndlistarmanna, Félag íslenskra samtímaljósmyndara, Íslenskri grafík, Leirlistarfélaginu, Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík og Textílfélaginu verða sjálfkrafa félagar í SÍM enda séu inntökuskilyrði þeirra í samræmi við inntökureglur SÍM.

Stjórn SÍM tekur jafnframt nýja félaga inn í sambandið standist þeir inntökureglur eins og þær hafa verið samþykktar á aðalfundi.
Allar breytingar á inntökureglum SÍM verða að hljóta samþykki 2/3 mættra fundarmanna á aðalfundi.

5. grein
Félagsmenn í Sambandi íslenskra myndlistarmanna verða sjálfkrafa félagsmenn í Myndstefi, Myndhöfundasjóði Íslands.  Félagsmenn öðlast öll réttindi og skuldbinda sig til þess að hlíta öllum skyldum sem fylgja aðild að Myndstefi.

6. grein
SÍM er aðili að Bandalagi íslenskra listamanna.  Formaður SÍM er fulltrúi í stjórn BÍL og varaformaður í forföllum hans en stjórn SÍM sækir jafnframt aðalfundi BÍL.

7.  grein
Stjórn Sambands íslenskra myndlistarmanna skipa fimm fulltrúar, formaður, varaformaður, ritari, vararitari og gjaldkeri. Varamenn eru tveir.

Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn. Meðstjórnendur eru einnig kosnir til tveggja ára og skipta þeir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Ennfremur skal kjósa tvo varamenn til tveggja ára. Þeir frambjóðendur sem flest atkvæði hljóta í kjöri meðstjórnenda og varamanna taka sæti í stjórn. Hljóti tveir menn jafna atkvæðatölu skal varpað hlutkesti á milli þeirra.

Aldrei skulu fleiri en tveir meðstjórnendur og einn varamaður ganga úr stjórninni hverju sinni. Ef stjórnarmaður hættir stjórnarsetu áður en kjörtímabili hans líkur skal varamaður skipa sæti hans. Ef aðalmaður boðar forföll skal boða varamann í hans stað.

 8. grein
Aðalfundur skal haldinn að vori ár hvert og ekki seinna en í maílok.  Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.  Rétt til setu á aðalfundi hafa allir sem eru fullgildir félagar samkvæmt skrám félagsins.

Aðalfundur skal auglýstur með átta vikna fyrirvara hið minnsta. Skrifleg tilkynning um framboð til stjórnarstarfa skal hafa borist skrifstofu SÍM fyrir auglýstan umsóknarfrest, sem skal vera eigi síðar en fjórum vikum fyrir aðalfund svo að unnt verði að birta í fundarboði endanlegan lista yfir þá sem gefa kost á sér.

Endanlegt fundarboð skal sent út minnst þremur vikum fyrir aðalfund.

Stjórn skal kosin rafrænt og eru allir fullgildir félagsmenn sambandsins kjörgengir. Eftir að kjörfundi lýkur á aðalfundi skulu niðurstöður rafrænnar kosningar tilkynntar.

Dagskrá aðalfundar skal vera svohljóðandi:
1.  Skýrsla stjórnar.
2.  Reikningar.
3.  Stjórnarkosning.
4.  Kosning eins fulltrúa í sambandsráð sbr. 9. gr.
5.  Kosning félagslegs skoðunarmanns og löggilts endurskoðanda til eins árs.
6.  Lagabreytingar.
7.  Ákvörðun félagsgjalda.
8.  Önnur mál.

Allar samþykktir á aðalfundi verða að hljóta einfaldan meirihluta greiddra atkvæða.

9. grein
Sambandsráð er stjórn til ráðgjafar. Sambandsráð skipa fulltrúar Félags íslenskra myndlistarmanna, Félag íslenskra samtímaljósmyndara,  Íslenskrar grafíkur, Leirlistarfélagsins, Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík, Myndlistarfélagsins, Textílfélagsins og fulltrúi félagsmanna sem ekki eru meðlimir í neinu af ofangreindum félögum, kosinn á aðalfundi sambandsins. Fulltrúar aðildarfélaga SÍM í Sambandsráði séu jafnframt fullgildir félagar í SÍM. Sambandsráð skal funda með stjórn og varamönnum stjórnar minnst tvisvar sinnum á ári. Sambandsráð getur óskað eftir aukafundi.

10. grein
Auk aðalfundar skal sambandið halda eigi færri en tvo almenna félagsfundi á ári, að hausti og um miðjan vetur.  Eru slíkir fundir ályktunarhæfir um atriði er snerta hagsmuni myndlistarmanna og allt annað er viðkemur félagsmönnum, hafi þeir verið boðaðir með viku fyrirvara. Stjórn SÍM skal ávallt kveða saman félagsfund ef 30 félagsmenn eða fleiri æskja þess.  Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á félagsfundum.

11. grein
Stjórn SÍM ber ábyrgð á daglegum rekstri sambandsins á milli aðalfunda og geri samninga fyrir hönd félagsins. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra sambandsins. Ennfremur skipar stjórn í ráð og nefndir fyrir hönd sambandsins.

12. grein
Sambandið gefi út fréttablað/fréttabréf og starfræki skrifstofu með starfsmanni/framkvæmdastjóra.

13. grein
Aðalfundur ákveður árgjald sambandsins.  Gjalddagi árgjalds í SÍM er 1. janúar ár hvert og eindagi 1. febrúar. Eftir eindaga reiknast almennir dráttarvextir. Fullgildir félagar SÍM teljast þeir sem greitt hafa félagsgjöld yfirstandandi árs.

Þeir félagsmenn sem ekki hafa greitt félagsgjöld hafa ekki atkvæðisrétt á félagsfundum né aðalfundi og ekki heldur kjörgengi í stjórn eða önnur trúnaðarstörf fyrir sambandið, nema þeir hafi gert upp skuld sína fyrir aðalfund.

Þeir félagsmenn, sem ekki hafa greitt árgjaldið í tvö ár samkvæmt framansögðu, falla sjálfkrafa út af félagaskrá og verða ekki félagsmenn á ný fyrr en þeir hafa greitt skuld sína allt að þrjú ár aftur í tímann.

Félagsmenn sjötugir og eldri greiða hálft árgjald til sambandsins. Stjórnarmenn SÍM skulu undanþegnir árgjaldi til sambandsins.

Skylt er að taka skriflega úrsögn félagsmanna til greina.

14. grein
Breytingar á lögum SÍM verða ekki gerðar nema á aðalfundi og því aðeins að 2/3 mættra fundarmanna greiði þeim atkvæði.  Allar tillögur um lagabreytingar svo og aðrar veigamiklar tillögur sem bera skal upp til atkvæða á aðalfundi skulu boðaðar í fundarboði.

15. grein
Félagar eru skyldir að hlýða lögum sambandsins og halda í einu og öllu þær samþykktir og samninga sem SÍM hefur gert.

16. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com