Myndhöggvarafélagið í Reykjavík

Myndhöggvarafélagið í Reykjavík er fagfélag og var stofnað 1972 en helstu hvatamenn þess voru Ragnar Kjartansson og Jón Gunnar Árnason. Síðan hefur félagið unnið ötullega að því að myndlistarmenn hafi aðgang að verkstæðum og vinnustofum auk þess að skipuleggja sýningar og gefa út rit.

Félagið, verkstæði og vinnustofur þess eru til húsa að Nýlendugötu 15 en í því húsnæði var áður vélsmiðja Kristjáns Gíslasonar.  Félagið hefur einnig umsjá með geymsluhúsnæði fyrir félagsmenn að Korpúlfsstöðum. Félagið hefur átt fulltrúa í úthlutunarnefndum ss. Serrasjóðnum. Félagsmenn telja nú 129. Myndhöggvarafélagið er aðildarfélag í SÍM.

Starfsemin í húsinu

Starfsemi félagsins er margþætt en stærsti og mikilvægasti hluti þess eru rekstur verkstæðanna. Verkstæðin að Nýlendugötu eru einstök, það er engin önnur sambærileg aðstaða til handa myndlistarmönnum í Reykjavík og því mikið og ötult starf sem þar er unnið. Verkstæðin eru margvísleg, þar er smíðaverkstæði, járnsmíðaverkstæði, log- og rafsuðuaðstaða, eldstæði, brennsluofn og leirrennibekkur.

Félagsmenn eru margir hverjir kunnir myndlistarmenn sem hafa starfað að list sinni og framleitt verk innan veggja félagsins, ss. Finnbogi Pétursson, Ragnhildur Stefánsdóttir, Hreinn Friðfinnsson, Magnús Pálsson, Steingrímur Eyfjörð, Ólöf Nordal, Ásmundur Ásmundsson, Rúrí, Haraldur Jónsson, Hannes Lárusson, Hulda Hákon og Hekla Dögg, svo nokkur séu nefnd. Það má því segja að Myndhöggvarafélagið sé hornsteinn faglegrar myndsköpunar á Íslandi.

Félagið heldur einnig uppi 10 vinnustofum, í sama húsi, sem leigðar eru út til félagsmanna og einu verkefnarými sem hægt er að leigja í stuttan tíma.

Umræðuhópar og leshringir hafa myndast og halda fundi sína á kaffistofunni, sýningarstjórar og skríbentar koma í heimsókn og eiga fundi við listamennina, haldnir eru fyrirlestrar um myndlist og tengd málefni og félagið er samkomustaður þeirra sem starfa við eða hafa áhuga á myndlist.

Sýningar og verkefni

Félagið hefur sett upp nokkrar sýningar í opinberu rými sem hafa laðað almenning að við góðan orðstýr eins og sýningin Strandlengjan (1998) meðfram suðurströnd borgarinnar, Firma (1999), úti-og innisýning unnin í samvinnu við fyrirtæki á vegum borgarinnar, þátttaka á Listahátíð í Reykjavík, fræðslustarf í grunnskólum borgarinnar – Myndlist fyrir alla, svo fátt eitt sé nefnt. Félagið hefur einnig tekið þátt í

erlendum sýningum og samstörfum ss. Site-Ations (2005) og hélt á tímabili uppi alþjóðlegri vinnustofudvalaraðstöðu. Í nóvember 2010 tók félagið í fóstur frá Reykjavíkurborg lítinn almenningsgarð að Nýlendugötu 17 sem heitir Höggmyndagarðurinn. Þar verða afhjúpuð ný verk 2-3 sinnum á ári.

Stjórn

Formaður er Logi Bjarnason

Meðstjórnendur eru Finnur Arnar, Olga Bergmann, Katrín Inga og Þórarinn Blöndal

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com