Íslensk Grafík

Félagið Íslensk Grafík (einnig kallað Grafíkfélagið) var stofnað í núverandi mynd árið 1969 en var upprunalega stofnað árið 1954. Meginliðurinn í starfsemi félagsins hefur lengst af verið sýningarhald af ýmsu tagi. Félagið hefur sömuleiðis staðið að kynningu á erlendri grafík hérlendis.

Félagsmenn eru um sjötíu talsins og eru myndlistarmenn sem hafa sérmenntað sig í grafík og nota grafískar úrlausnir við útfærslu verka sinna. Í hjarta Reykjavíkur hefur félagið aðsetur, í Hafnarhúsinu, Tryggvagötu 17, hafnarmegin, þar sem starfrækt er grafíkverkstæði og sýningarsalur. Listgrafík krefst sérhæfðrar aðstöðu, tækjabúnaðar og efnameðferða sem sjaldnast er á færi einstakra listamanna að skapa sér. Af þeim sökum rekur félagið sérhæft verkstæði ætlað fagfólki í grafík. Verkstæðið er hjarta félagsins og starfræksla þess gegnir lykilhlutverki í innra starfi Í.G. og gengur það starf vel. Fjölmargir innlendir og erlendir myndlistamenn hafa starfað á verkstæðinu í lengri eða skemmri tíma. Margir gestalistamenn frá SÍM nýta sér verkstæðið sem og aðrir reyndir myndlistarmenn.
Verkstæðisaðild er leigð út eftir samkomulagi, all frá einum degi til eins árs í senn.

Í sýningarsal félagsins eru haldnar metnaðarfullar sýningar á verkum félagsmanna og annarra listamanna, íslenskum sem erlendum. Sýningarsalurinn er opinn fimmtudaga – sunnudaga frá kl. 14-18 og geta listamenn sótt um að sýna í salnum hjá sýningarnefnd félagsins (auglýst hjá SÍM, sjá nánar á heimasíðu Í.G.).

Meðal fastra viðburða er þátttaka félagsins í Menningarnótt og Safnanótt.

Starfsemi félagsins er umfangsmikil og alfarin í umsjá félagsmanna. Í félaginu er starfandi stjórn, sýningarnefnd og verkstæðisnefnd og eru störf unnin í sjálfboðavinnu.

Stjórn

Elísabet Stefánsdóttir, formaður

Anna Snædís Sigmarsdóttir, gjaldkeri

Marilyn Herdís Mellk, ritari

Valgerður Björnsdóttir, varamaður í stjórn

Birna Einarsdóttir, varamaður í stjórn

Sýningarnefnd:

Soffía Sæmundsdóttir

Elva Hreiðarsdóttir

Magdalena Margrét Kjartansdóttir

Gréta Mjöll Bjarnadóttir

Verkstæðisnefnd:

Laura Valentino,

Victor Rodriguez

Sigrún Sæmundsdóttir

Í félaginu er að finna þekkingu á fjölbreyttri grafíktækni. Framboð á menntun grafíklistamanna hefur breyst síðustu árin og er því hlutverk félagsins enn brýnna en áður. Samstarf ÍG við grafíkfélög og verkstæði erlendis byggja á traustum grunni og er viðvarandi.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com