Félag íslenskra samtímaljósmyndara

Framþróun framsækinnar fagurfræðilegrar ljósmyndunar á Íslandi og aukin virðing og skilningur á ljósmyndamiðlinum hafa verið markmið Félags íslenskra samtímaljósmyndara, FÍSL, frá stofnun þess árið 2007. Félagið er vettvangur til að ræða og kanna ljósmyndina sem listform.

FÍSL var stofnað árið 2007 af átta ljósmyndurum með það fyrir augum að auka vegsemd ljósmyndamiðilsins og vinna að því að ljósmyndurum á Íslandi takist að vinna að list sinni. Síðan þá hefur félagið staðið fyrir sýningum og viðburðum, meðal annars á Þjóðminjasafni Íslands, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, í Norræna húsinu og Gallery Hippolyte í Helsinki þar sem sýningin Frontiers of Another Nature opnaði árið 2013. Auk þess hefur félagið átt í samstarfi við erlend ljósmyndafélög og stofnanir. European Borderlines var samstarfsverkefni milli fjögurra Evrópulanda þar sem ungir ljósmyndarar fengu tækifæri til að ferðast til annars þátttökulands og vinna þar ljósmyndaverk sem sýnd voru í viðkomandi löndum; Portúgal, Tyrklandi, Lettlandi og Íslandi.

Sýningin Endurkast opnaði árið 2008 í Þjóðminjasafninu með verkum eftir stofnmeðlimi FÍSL. Samhliða sýningunni kom út bókin Endurkast – íslensk samtímaljósmyndun með viðtölum Sigrúnar Ölbu Sigurðardóttur við ljósmyndarana auk heimspekilegra hugleiðinga Hjálmars Sveinssonar um verkin.

Ljósmyndahátíðin Ljósmyndadagar var haldin í fyrsta sinn í febrúar 2012 í samstarfi við Ljósmyndasafn Reykjavíkur og fer hún nú fram á tveggja ára fresti. Hátíðin hefur það að markmiði að stuðla að metnaðarfullum ljósmyndasýningum fyrir almenning og ljósmyndaáhugafólk og einnig að gefa íslenskum ljósmyndurum tækifæri til að kynna verk sín fyrir erlendum og innlendum sýningarstjórum og fagfólki í greininni í svokallaðri ljósmyndarýni (e. portfolio review).

Veturinn 2012-2013 stóð félagið fyrir fyrirlestraröð í Þjóðminjasafni Íslands þar sem fræðimönnum og listamönnum var boðið að spjalla saman um ljósmyndaverk. Sköpuðust þar fræðandi og skemmtilegar umræður um ljósmyndina sem listmiðil.

Í dag eru tæplega 30 meðlimir í félaginu.

Heimasíða félagsins: www.fisl.is – fisl@fisl.is

Stjórn 

Formaður: Spessi

Gjaldkeri: Bragi Þór Jósefsson

Stjórnarmenn: Sissa Ólafsdóttir, Ingar Högni Ragnarsson og Kristín Bogadóttir

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com