Heimafjöllin

Um fjöll og fossa – opnun Jónínu Mjallar Þormóðsdóttur og Margrétar Rósar Harðardóttur í Galerie Atelier III

Laugardaginn 29. júní kl. 15 verður samsýning Jónínu Mjallar Þormóðsdóttur og Margrétar Rósar Harðardóttur, Um fjöll og fossa, opnuð í Galerie Atelier III í Barmestedt rétt við Hamborg í Þýskalandi.

Myndlistarkonurnar eiga það sameiginlegt að hafa numið við Die Hochschule für Künste Bremen á sínum tíma, en þær tengjast einnig með efnislegum og formrænum tilvísunum í íslenska náttúru.

Náttúrutengsl Jónínu Mjallar er að finna í margs konar tilbrigðum við stef náttúrunnar: rjúpnabein, fjöll og dulúðlegt landslag. Í beinagrind rjúpunnar hefur listakonan fundið lífræna frummynd í óskabeininu og endurskapar hana í mismunandi stærðum og uppröðunum í höggmyndarformi. Þessi meira en mannhæðarháu óskabein eru mynduð úr litríku froðuplasti. Hið ódýra gerviefni gerir það að verkum að ekki er beint hægt að skynja beinin sem skáldlega fagra höggmynd. En aftur á móti sýna beinin skýrt hversu jöfn hlutföllin eru í þessu annars náttúrulega formi. Þar af leiðandi bæta innihald og form hvort annað upp, en eru um leið í algjörri andstöðu hvort við annað.

Verk Margrétar Rósar Harðardóttur á sýningunni fjalla um vatn, sól og fjöll. Með sérstakri samsetningu og uppröðun á mislöngum og mislitum ullarþráðum nær listakonan að kalla fram sömu hughrif og náttúrulegur foss, en þó er allan tímann ljóst að um innsetningu úr íslenskri ull er að ræða. Ef horft er lengi á fossinn verða hughrifin þó svo sterk að áhorfandinn getur varla slitið sig frá hreyfingunni og drifkraftinum. Hina írónísku yfirfærslu á streymandi vatni í höggmyndarform er þegar að finna í verkefninu Save a Wave þar sem Margrét Rós safnaði haföldum í krukkur ásamt starfssystur sinni Verenu Müller og seldi þær svo – allan tímann með það að markmiði að koma af stað hreyfingu sem væri reiðubúin að bjarga öldum þessa heims.

Ávörp á opnun flytja Karin Weissenbacher, gallerístjóri Galerie Atelier II, Heike Döpke, borgarstjóri Barmestedt, Helmut Ahrens, sveitarstjóri Pinneberg, Norbert Deiters, heiðurskonsúll Íslands í Hamborg og Soffía Gunnarsdóttir, menningarfulltrúi sendiráðs Íslands í Þýskalandi. Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur mun einnig koma fram og flytja nokkur lög.

Sýningin stendur til 11. ágúst og er opin þriðjudaga til fimmtudaga kl. 14-18 og laugardaga og sunnudaga kl. 12-18.

Frekari upplýsingar um listamennina má finna á joninamjoll.com og margretros.com, en einnig er hægt að senda tölvupóst á netföngin jmth@gmx.de og mail@margretros.com

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com