Safneign Og Þjórsá Bodskort VEF

Tvær nýjar sýningar í LÁ

Þjórsá eftir Borghildi Óskarsdóttur og

Undirstaða og uppspretta – sýn á safneign

Laugardaginn 10. mars kl. 14 verða opnaðar tvær nýjar sýningar í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Annars vegar sýningin Þjórsá þar sem Borghildur Óskarsdóttir hefur unnið innsetningu, umhverfisverk, í safnið og hins vegar Undirstaða og uppspretta – sýn á safneign þar sem verk í eigu safnsins eru til skoðunar.

Um nokkurn tíma hefur Borghildur rannsakað ýmislegt sem tengist fjölskyldusögu hennar og skilað niðurstöðunum í formi margbreytilegra listaverka sem oft má skilgreina sem umhverfislist. „Í verkinu Þjórsá skrifar Borghildur nýjan kafla í heildarverk sitt og setur rannsóknina á fjölskyldusögunni í fyrirbærafræðilegt samhengi. Áherslan er ekki lengur á ættfræðina og frásagnir fólksins af baráttunni við sandinn, heldur á beina náttúrutengingu vitundarinnar við umhverfið. Í verkinu beinir hún athygli áhorfandans að Þjórsá, lengsta fljóti á Íslandi sem á upptök sín á norðanverðum Sprengisandi og rennur til sjávar í suðri.   . . .   Í verkinu miðlar hún birtu, lit, hreyfingu, hljóðum, áferð, og öðrum eiginleikum umhverfisins sem hafa sterkt fagurfræðilegt aðdráttarafl.“  Segir m.a. í grein eftir Æsu Sigurjónsdóttur sem birtist í sýningarskrá sem safnið gefur út um sýninguna. Þjórsá Borghildar í Listasafni Árnesinga er innsetning sem felur í sér vinsamlega hvatningu til þess að læra að þekkja og virða söguna og landið.

Við það vakna líka pólitískar spurningar um samband manns og náttúru og með því að setja sýninguna Þjórsá upp samhliða sýningu á verkum úr safneign Listasafns Árnesinga verða spurningar um mat á verðmætum og gildi varðveislu enn áleitnari. Hvað felst í þeirri siðferðislegu og samfélagslegu ábyrgð að skila verðmætum til komandi kynslóða og hver eru þau verðmæti?

Í safneign Listasafns Árnesinga eru varðveitt um það bil 550 listaverk. Með sýningunni Undirstaða og uppspretta – sýn á safneign er sjónum einkum beint að þeim verkum sem nýlega hafa bæst í safneingina en einnig að nokkrum öðrum verkum sem flest hafa ekki verið sýnd áður í safninu. Heiti sýningarinnar vísar í það að undirstaða safnastarfs er safneignin og hún er varðveitt til þess að vera öðrum uppspretta til frekari sköpunar bæði nú og á komandi tímum. Á sýningunni eru verk eftir jafn ólíka listamenn og Einar Jónsson (1874-1954), Ásgrím Jónsson (1876-1958), Kristinn Pétursson (1896-1981), Jóhann Briem (1907-1991), Valtý Pétursson (1919-1988), Guðmund Benediktsson (1920-2000) og Ólaf Lárusson (1951-2014) þar sem flest verkin eru eftir Valtý Stefánsson úr nýlegri gjöf til safnins úr Listaverkasafni hans. Á sýningunni liggja einnig frammi bækur sem ritaðar hafa verið um myndlist þessarra listamanna og gestir sýninganna eru líka hvattir til þess að láta verkin verða hvata eigin sköpunar með því að bjóða þeim ýmis áhöld til skissugerðar.

Sýningarstjóri beggja sýninganna er Inga Jónsdóttir og þær munu standa til og með 10. maí. Safnið er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12-18 en frá og með 1. maí er það opið daglega.  Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir – líka á opnun sýninganna.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com