TUMI MAGNÚSSON – HÁDEGISFYRIRLESTUR Í MYNDLISTARDEILD

Largopresto beint inn     Tumi mynd

 

TUMI MAGNÚSSON

 

HÁDEGISFYRIRLESTUR Í MYNDLISTARDEILD

Mánudaginn 16. mars kl. 12.30 heldur listamaðurinn Tumi Magnússon fyrirlestur um verk sín og vinnuaðferðir í fyrirlestrarsal myndlistardeildar að Laugarnesvegi 91.
Tumi Magnússon fæddist í Reykjavík árið 1957.  Hann lærði við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og við AKI listaháskólann í Enschede, Hollandi.  Hann var prófessor við Listaháskóla Íslands frá 1999 til 2005 og við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn frá 2005 til 2011. Hann býr og starfar í Kaupmannahöfn og á Seyðisfirði.  Næstu vikurnar mun Tumi kenna við myndlistardeild Listaháskóla íslands.
Í fyrirlestrinum mun Tumi fjalla um verk sín og feril ásamt sýningu sína Largo–Presto sem opnaði nýverið í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar. Sýningin mun standa til 22. mars og verður síðan sett upp í MACMO samtímalistasafninu í Montevideo í Uruguay í október næstkomandi.

 

Tumi Magnússon nálgast athuganir sínar á möguleikum hversdagsins með því að umbreyta viðfangsefni sínu og teygja það til. Hann notar oft ljósmyndir sem í meðhöndlun hans fá form heilla veggja eða rýmishluta, þannig að hinn ljósmyndaði hlutur ummyndast og rennur saman við arkitektúr sýningarsalarins.  Hann gerir vídeó og hljóðverk á sömu forsendum, en sem fjalla meira um hreyfingu og tíma. Þessi verk eru oft bundin ákveðnum stað.  Verk Tuma eru í eigu safna hérlendis og erlendis jafnframt því sem varanleg verk eftir hann hafa verið sett upp í almannarými í Danmörku.
Fyrirlesturinn fer fram á íslensku og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Nánari upplýsingar um Tuma Magnússon má finna hér: http: http://tumimagnusson.com

 

Opnir fyrirlestrar í myndlistardeild

 

Á ári hverju heldur fjöldi lista- og fræðimanna erindi um verk sín og hugmyndir á fyrirlestrum í myndlistardeild. Fyrirlestrarnir eru opnir almenningi og er ætlað að kynna margþætt viðfangsefni úr heimi lista og samtímamenningar og hvetja til umræðu um þau. Fyrirlestrarnir eru mikilvægur þáttur í starfsemi deildarinnar og eru ætlaðir til að efla tengsl milli nemenda og starfandi lista- og fræðimanna.

 

Fyrirlestrar í myndlistardeild fara fram í fyrirlestrarsalnum að Laugarnesvegi 91. Þeir eru opnir almenningi og er aðgangur ókeypis.

 

Tengiliður: Ásdís Spanó, verkefnastjóri myndlistardeildar, asdisspano@lhi.is

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com