Transland – Sýning Huldu Vilhjálmsdóttur verður opnuð í Artóteki fimmtudagin 29. janúar kl. 17

 image011

TRANSLAND

Myndlistarsýning Huldu Vilhjálmsdóttur í Artóteki

 

Fimmtudaginn 29. janúar kl. 17 verður sýningin Transland opnuð í Artóteki Borgarbókasafnsins í Tryggvagötu 15. Hulda Vilhjálmsdóttir myndlistarmaður sýnir þar olíumálverk, teikningar og myndband.

 

Titill sýningarinnar Transland vísar til þess, að sögn Huldu, að hún fellur í eins konar trans þegar hún málar. Hugarástandið lýsir sér sem rytmi eða taktur sem streymir frá hjartanu í höndina sem heldur á penslinum eða blýantinum. „Þegar ég vinn líður mér eins og ketti sem sér vel í myrkri. Allt í kring er dimmt en mér tekst að fanga það sem er og koma því áfram á flötinn fyrir framan mig. Hver pensilstroka hefur sérstaka merkingu og áferðin skiptir máli. Transland er heimur minn og reynsla,“ segir Hulda.

 

Hulda hefur ávallt teiknað mikið, gert skúlptúra, innsetningar og gjörninga. Síðustu árin hefur hún einnig unnið með leir. Hún er þó sennilega þekktust fyrir málverk sín þar sem manneskjan, náttúran og tilfinningar eru viðfangsefnin. Í þeim má greina átök, innilokun, ógn og einmanaleika en einnig gleði og fjör. Við fyrstu sýn gætu verkin virst grófgerð en yfir þeim er samt fínleiki og einhverslags kennd sem á sér rætur djúpt í sálinni. Málverk Huldu og önnur verk hennar eru aldrei yfirborðskennd, þau snerta áhorfandann beint í hjartastað.

 

Hulda lauk BA-prófi í málun frá Listaháskóla Íslands árið 2000 og lærði leirlist í Myndlistaskólanum í Reykjavík 2006-2008. Einkasýningar Huldu eru vel á annan tug frá því að hún lauk námi úr Listaháskólanum, auk þess sem hún hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum með öðrum hér heima og erlendis.

Hulda hefur komið víða við á myndlistarferlinum. Hún hefur tekið þátt í að stofna fjögur gallerí, gefið út ljóða- og teikningabækur og um þessar mundir er hún að taka saman bók með myndum af verkum sínum. Árið 2007 voru listaverk Huldu í forvali vegna Carnegie Art-verðlaunanna. Listasafn Íslands, fjölmörg fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar eiga listaverk eftir hana.  Vinnustofa Huldu er að Grandagarði 31 og þar hefur hún efnt til sýninga nokkrum sinnum á ári.

 

Verkin á sýningunni eru til sölu og leigu hjá Artótekinu www.artotek.is

Transland stendur til sunnudagsins 1. mars og er opin á afgreiðslutíma bókasafnsins.

 

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com