Erla Þórarinsd. Austur Vestur

Tímalög

Tímalög

Karl Kvaran og Erla Þórarinsdóttir

Ný sýning í Listasafni Árnesinga

 

Föstudaginn 12. ágúst kl. 18 verður sýningin Tímalög opnuð í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Þar er teflt saman verkum eftir listmálarana Karl Kvaran (1924-1989) frá tímabilinu 1968–1978, og málverkum og skúlptúrum eftir Erlu Þórarinsdóttur (1955) frá síðustu tíu árum. Í málverki eru undirliggjandi tímalög og hrynjandi sem pensilfarið skráir en sýnileiki tækninnar er eitt af einkennum málverksins sem miðils segja sýningarstjórarnir Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir m.a. í texta sýningarskrár sem gefin er út með sýningunni.

Karl Kvaran rannsakaði möguleika og þanþol gvasslitarins rækilega og vann nánast óslitið með hann í tæpa tvo áratugi, allt frá árinu 1956. Verk hans frá þessum tíma grundvallast á kröftugri línuteikningu sem síðar leikur mikilvægt hlutverk í olíumálverkum hans á 8. áratugnum. Hann leysir upp agaða lárétta myndbyggingu sem einkennir verk hans frá 6. áratugnum og bugðóttar grafískar línur fara að leika um myndflötinn í hrynjandi takti.  Verk Karls eru máluð í mörgum lögum. Við fyrstu sýn virðast þau í fáum litum en við nánari skoðun má greina vinnuferlið og eldri litalög í gegnum yfirborðið.

Línan leikur sömuleiðis mikilvægt hlutverk í málverkum Erlu Þórarinsdóttur og er undirstaðan í formrænni útfærslu þeirra ásamt litnum. Verkin eru byggð upp af línuteikningu sem sveigir og beygir formin svo þau framkalla sjónræn þrívíddaráhrif. Oft má sjá glitta í undirlög á yfirborðinu sem gera myndflötinn lifandi og kvikan. Erla leggur verkin sín oft blaðsilfri sem ýmist þekur ákveðin form eða undirstrikar einstaka þætti þeirra. Á yfirborðinu rifar í undirliggjandi teikningu, liti og strúktúr verksins sem vitnar um vinnuferlið.

Opnun sýningarinnar er á dagskrá Blómstrandi daga í Hveragerði og af því tilefni leikur Jazztríó Páls Sveinssonar nokkur lög við opnunina.  Sunnudaginn 14. ágúst kl. 17:00 verða líka útgáfu-tónleikar í safninu þegar Artic strengjasveitin leikur af nýútgefnum hljómdiski íslensk þjóðlög og vinsæl sönglög. Kvartettinn skipa fiðluleikarinn Ágústa M. Jónsdóttir, víóluleikarinn Kathryn Harrison, sellóleikarinn Ólöf S. Óskarsdóttir og fiðluleikarinn Martin Frewer, sem hefur útsett öll lögin. Hljóðfæraleikararnir eiga öll sæti í Sinfóníuhljomsveit Íslands.

Sýningin Tímalög mun standa til og með 13. nóvember og í ágúst og september er safnið opið alla daga kl. 12 – 18. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir – líka á opnun sýningarinnar og útgáfutónleikana.

 

Mynd: Erla Þórarinsdóttir austur vestur.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com