Capturelogo

Til hamingju með nýjasta áfangann í “Borgum listamönnum” baráttunni.

Mikilvægum áfanga var náð nú nýlega þegar Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, höfuðsafns íslenskrar myndlistar, lagði fram verklagsreglur safnsins um greiðslur til myndlistarmanna vegna sýninga á eigin verkum.  Verklagsreglurnar voru bornar undir stjórn SÍM – Sambands íslenskra myndlistarmanna og í framhaldinu undirritaðar af formanni SÍM, Önnu Eyjólfsdóttur þann 14. Janúar 2019.

Baráttan um að borga listamönnum á sér langa sögu, sem hófst skömmu eftir að SÍM var stofnað árið 1982. Framan af var lítill skilningur á því að myndlistarmenn þyrftu laun fyrir sína vinnu jafnt og aðrar starfsstéttir og fæstir virtust hvorki vita að myndlistarnám er sérnám, né heldur að starfandi myndlistarmenn hafa að jafnaði fjögurra til tíu ára háskólanám að baki.

Á síðasta ári var stigið stórt skref þegar samningar tókust milli SÍM og Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Akureyrar og Hafnarborgar í Hafnarfirði um greiðslur til listamanna.  Samningar og reglur sem þessar eiga að tryggja sjálfsögð mannréttindi og vonandi styttist í að SÍM nái sambærilegum samningum við öll önnur söfn.

Samkomulag við höfuðsafn íslenskrar myndlistar, Listasafn Íslands, um reglur þessa efnis er gríðarlega mikilvægt, því gert er ráð fyrir að höfuðsafnið veiti öðrum söfnum á sínu sviði ráðgjöf og vinni að samræmdri safnastefnu um allt land.

Þeim fjölmörgu sem unnu að undirbúningi og gerð þessara samninga ber að þakka, fyrri formönnum og stjórnum SÍM, safnstjórum listasafna, fulltrúum Menntamálaráðuneytisins, Borgarstjórn Reykjavíkur og sveitarstjórnum Akureyrar og Hafnarfjarðar.

Ég óska félagsmönnum SÍM til hamingju með þennan merka áfanga.

Anna Eyjólfsdóttir, formaður

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com