Par 2 Guðmundur Thoroddsen

ÞVÍ MYNDIN BYRJAR EINHVERS STAÐAR

04.02.2017 – 17.03.2017

Laugardaginn 4. febrúar kl. 13.30 opnar sýningin Því myndin byrjar einhvers staðar í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19.

Á sýningunni eru málverk úr safneign bankans frá 1939-1993 pöruð við málverk yngri listamanna frá 2010-2016 – verk sem kallast á með einum eða öðrum hætti.

Tuttugu listamenn, fæddir frá 1901-1984, eiga verk á sýningunni. Þeir koma úr ólíkum áttum og vinna oftar en ekki út frá ólíkri hugmyndafræði, en eiga það þó sameiginlegt að nota málverkið sem miðil. Verkin á sýningunni tengjast á mismunandi hátt, sum í formi, önnur í lit og línum eða jafnvel hrynjanda. M.a. parast verk þriggja yngri listamanna við jafnmörg verk eftir Þorvald Skúlason, en titill sýningarinnar er einmitt tilvitnun í viðtal við Þorvald frá 1976.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Bragi Ásgeirsson, Davíð Örn Halldórsson, Guðmundur Thoroddsen, Heimir Björgúlfsson, Helgi Már Kristinsson, Helgi Þorgils Friðjónsson,

Helgi Þórsson, Hildur Bjarnadóttir, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir, Jóhannes Jóhannesson, Magnús Helgason, Magnús Kjartansson, Marta María Jónsdóttir, Ragnheiður Jónsdóttir Ream, Snorri Arinbjarnar, Svavar Guðnason, Vilhjálmur Bergsson, Þorvaldur Jónsson og Þorvaldur Skúlason

Sýningin hefst á fyrirlestri Dorothée Kirch þar sem hún segir frá verkunum og veltir fyrir sér hvernig hugmyndir listamanna enduróma milli tímabila.

Dorothée Kirch (f. 1974) hefur starfað við myndlist á Íslandi undanfarin 16 ár, meðal annars fyrir Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Íslands og Listahátíð í Reykjavík. Hún var framkvæmdastjóri íslenska skálans á Feneyjartvíæringnum 2011 og 2013 og sýningarstjóri skálans 2009. Hún var framkvæmdastjóri Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar um tíma og hefur komið að fjölmörgum öðrum verkefnum á sviði myndlistar sem sýningastjóri og ráðgjafi. Dorothée útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2001 með BA gráðu í myndlist og með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2005.

Sýningin stendur til 17. mars og er opin gestum og gangandi virka daga frá kl. 10-16

Nánari upplýsingar veitir Íris Stefánsdóttir hjá Arion banka, iris.stefansdottir@arionbanki.is eða í síma 8566788

Undanfarin ár hefur Arion banki staðið fyrir listsýningum í höfuðstöðvum sínum. Meðal listamanna sem bankinn hefur sýnt verk eftir eru Guðmunda Andrésdóttir, Kristinn E. Hrafnsson, Hrafnkell Sigurðsson, Helgi Þórsson, Georg Guðni, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, Rax, Kees Visser og Hreinn Friðfinnsson. Auk þess á bankinn stórt safn listaverka eftir marga af merkustu listamönnum þjóðarinnar sem eru sýnileg í útibúum bankans og á starfstöðvum hans.

Ljósmynd af verki Guðmunar Thoroddsen, Tip off, 2015, akrýl á striga (birt með leyfi listamanns og Asya Geisberg Gallery)

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com