Kristinar 3

Þula Gallerí: Opnun sýningar Kristínar Morthens -Gegnumtrekkur

Laugardaginn 6.mars opnar Kristín Morthens einkasýninguna Gegnumtrekkur. Opnunin er frá 14:00-18:00 og stendur sýningin til 28.mars.

Í verkum sýningarinnar kannar Kristín frásagnarhefð, tímaleysi, þversagnir og áhættur. Það gerir hún í gegnum málverk sem sýna vistkerfi lífrænna forma með hvassar klær í óræðum rýmum og landslagi. Formin ýmist sökkva/fljóta, teygjast, togast á og potast annað hvort í samtali við sjálft sig eða gagnvart hvort öðru. Titill sýningarinnar er myndlíking á ferðalagi úr einum heimi yfir í annan. Gegnumtrekkur er afleiðing náttúruafla sem er hversdagsleg uppákoma í dagsdaglegu lífi. Kristín tekur því eitthvað svo algengt og hugsanlega saklaust úr eðlisfræðinni, en þenur það yfir í flóknara fyrirbrigði svo sem víddarflakk eða ferðalag milli veruleika. Í texta unnum útfrá málverkunum skrifa hún‚ „Ég opna tvo glugga á húsi. Barátta vindkviða við ójafnan loftþrýsting gerir það að verkum að ég sogast út um litla opið á fyrri glugganum sem var opnaður“. Í framhaldi af þessu augnabliki ferðast sögumaður inn í einhverskonar Frum-veruleika sem kjarnaður er í frásögn verkanna.

Kristín Morthens útskrifaðist með BFA í málverki úr OCAD University, Torontó, Kanada árið 2018 þar sem hún hlaut heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi árangur í málverki. Hún var einnig skiptinemi við The School of the Art Institute of Chicago árið 2016. Kristín er með vinnustofu í Reykjavík og Torontó. Í verkum hennar eru frásagnir af nánd, aðskilnaði og mörkum túlkaðar útfrá líkamlegum formum innan óræðra rýma, sem virðast ekki tilheyra þessum heimi. Hún hefur sýnt í Montreal, Los Angeles, Torontó, Stuttgart, Reykjavík, Kaupmannahöfn og tekið flátt í listviðburðum eins og Art Miami, Art Toronto, Foire Papier, Stuttgart Art Walk og Art With Heart í Art Gallery of Ontario. Einnig hefur hún haldið fyrirlestra um verk sín í Univeristy of Toronto og OCAD University. Nýlegar einkasýningar hennar eru Það sem fer í hring í Gallerý Port, Armar í GK Reykjavík, Introducing Kristín Morthens í Christopher Cutts og I Followed a Spiral, it Felt like a Ring í Angell Gallery. Gegnumtrekkur verður fyrsta einkasýning Kristínar í Þulu.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com