Oh

Þrjú tonn af sandi / Return to sender

Þrjú tonn af sandi / Return to sender
Þrjár einkasýningar á þremur klukkustundum

– Listamennirnir Bryndís Björnsdóttir, Snorri Páll og Steinunn Gunnlaugsdóttir opna myndlistarsýningar í hótelherbergi.
– Oddsson hótel, Hringbraut 121 (JL húsinu), 101 Reykjavík.
– Laugardaginn 19. nóvember frá kl. 16:00 til 19:00.
– Eingöngu opið þennan eina dag.

***

Laugardaginn 19. nóvember nk. opna þrjár einkasýningar þriggja listamanna í einu og sama reykvíska hótelherberginu. Hver sýning stendur yfir í klukkutíma – og fara þær allar fram í herbergi 425 á hótelinu Oddsson, Hringbraut 121 (JL húsinu), 101 Reykjavík. Frá anddyri hótelsins verður gestum leiðbeint að herberginu.

Klukkan 16:00 hefst sýning Steinunnar Gunnlaugsdóttur – Klefi – sem opnar óbrjótanleg og gagnsæ ormagöng milli tímaringlandi rýma og rýmistakmarkaðs tíma.

Klukkan 17:00 opnar sýning Bryndísar Björnsdóttur – Landráð I – sem er fyrsti liðurinn í listrannsóknarseríu sem veltir fyrir sér og afbyggir orðið „landráð“ í díalektík þess að tilheyra og svíkja. Úrkynjuð fjallkona tekst á við sögu landnáms Íslands í tilraunum sínum til að af-nýlenduvæða kvenlíkamann, og nemur land á fyrrum herstöðinni á Reykjanesi sem þar til nýlega var afgirt vegna hættu á sprengjubrotum.

Klukkan 18:00 opnar sýning Snorra Páls – SVIÐSETHNIC – sem unnin er út frá skrásetningu Sævars Marinós Ciesielski á ferðum sínum dagana í kringum 19. nóvember 1974, kvöldið sem Geirfinnur Einarsson gufaði upp, en skrásetninguna gerði hann í einangrunarklefa tæpum tveimur árum eftir mannshvarfið.

Sýningarnar eru unnar undir hatti þverfaglega rannsóknarverkefnisins OH, en aðrir hlutar verkefnisins fóru fram í október síðastliðnum, annars vegar í Hafnarhúsinu og hins vegar á Ásbrúarsvæðinu á Miðnesheiði. OH-verkefnið er styrkt af Myndlistarsjóði og Kulturkontakt Nord.

***

Bryndís Björnsdóttir er listamaður sem vinnur með að þreifa upp tilhneigingar og þeirra líkamlegu halla í formi gjörninga og skrifa. (www.bryndisbjorns.com)

Snorri Páll er lausamaður, ljóðskáld, slitamaður og sýningasóknari Sakminjasafnsins.

Steinunn Gunnlaugsdóttir fæst við list og brúkar til þess ýmsa miðla. Verkin kjarnast um tilvistarátök innra með hverri mannskepnu, sem og togstreitu og átök hennar við alla þá ytri strúktúra sem umkringja hana – eða uppgjöf gagnvart þeim. (www.sackofstones.com)

***

Frekari upplýsingar:
Steinunn Gunnlaugsdóttir – s. 776 6714
Snorri Páll – s. 763 1233

Nánari upplýsingar um OH-verkefnið: www.ohproject.org

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com