20180226 5O3A4908

Þrír gamalreyndir listamenn sýna í Listhúsi Ófeigs

TÍMAMÓT (Elliglöp)

Þrír vinir sýna í Listhúsi Ófeigs

Þrír gamalreyndir listamenn leiða saman hesta sína á sýningu í Listhúsi Ófeigs, Skólavörðustíg 5, þeir Örn Þorsteinsson, Ófeigur Björnsson og Magnús Tómasson. Þetta er þó langt í frá í fyrsta sinn sem þeir sýna saman. Magnús og Ófeigur voru fyrst saman á sýningu á áttunda ártugnum og allir þrír voru í hópnum sem rak Gallerí Grjót við Skólavörðustíg 1983–89 en þar var öflugt sýningarstarf og galleríið áberandi í miðbæjarlífinu.

Þessir reyndu listamenn hafa allir fengist mest við þrívíða myndlist þótt Magnús hafi líka sýnt konseptverk og málverk og sýni að þessu sinni ljósmyndir – myndir sem hann tók í katakombonum í París og sýna vel hvaða auga Magnús hefur fyrir óvenjulegu myndefni og húmorinn sem einkennir öll verk hans. Magnús er líka elstur þremenninganna, lærði í Kaupmannahöfn og tók þátt í útisýningunum frægu á Skólavörðuholti og starfaði í SÚM á sínum tíma. Höggmyndir hans má sjá víða á opinberum vettvangi og hann hefur haldið ótal sýningar. Örn lærði myndlist hér heima og í Stokkhólmi og hefur alla tíð einbeitt sér að höggmyndalistinni. Steinhöggsmyndir hans hafa verið sýndar víða og hann hefur haldið umfangsmiklar einkasýningar í listasöfnum en núna sýnir hann verk þar sem frummyndin er mótað í plastefni og siðan búin til afsteypa í brons.Ófeigur lærði gullsmíði og myndlist, hér heima og hefur alla tíða blandað saman þessum tveimur nálgunum í verkum sínum: Skartgripir hans hafa yfirbragð myndlistarverka og myndlistin ber sterk merki um handverkið og agann sem gullsmíðin krefst.

Allir hafa félagarnir á löngum ferli einbeitt sér að listinni og tekið virkan þátt í sýningarhaldi og myndlistarlífinu í landinu. Þar hafa þeir haldið upp merki höggmyndalistarinnar og sýnt í verki að hún á ekki síður erindi til okkar núna en þegar þeir hófu störf fyrir nokkrum áratugum síðan.

Sýningin opnar laugadaginn 14. apríl kl. 15:00 og stendur til 4. maí 2018. Allir velkomnir.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com