OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri: Dr. Thomas Brewer

Þriðjudaginn 4. október kl. 17-17.40 heldur Dr. Thomas Brewer, myndlistarmaður og prófessor í listum, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni The Significance of Art in Our Education. Í fyrirlestrinum, sem fer fram á ensku, fjallar hann m.a. um hvernig list og menntun geta haft áhrif á lífið. Brewer mun rekja persónulega sögu sína, ásamt  listrænni og faglegri þróun sem hefur leitt hann til Akureyrar í fimmta sinn. Aðgangur er ókeypis.

 

Dr. Thomas Brewer er með B.A. gráðu í listum og keramík frá Southern Illinois University Carbondale (1973),  M.A. gráðu í listum frá University of Illinois Urbana-Champaign (1985) og Ph.D. gráðu í listum frá Florida State University (1989). Hann hefur kennt listir og listnám á háskólastigi undanfarin 34 ár. Brewer opnaði sýninguna “Adjust <X> Seek (Con’t)” í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri 1. október og hefur dvalið í gestavinnustofu Gilfélagsins síðan í byrjun september. Þetta er hans fyrsta sýning á Íslandi. Í mörgum verka hans er leikur að orðum og aðstæðum í lífinu, með keim af kímni og kaldhæðni.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri og er öllum opin. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, listakona, Margrét Elísabet Ólafsdóttir, listfræðingur, Ásdís Sif Gunnarsdóttir, myndlistarkona, Almar Alfreðsson, vöruhönnuður, Pamela Swainson, myndlistarkona, Gústav Geir Bollason, myndlistarmaður, Lárus H. List, formaður Myndlistarfélagsins.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com