Haraldur Ingi2

Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu, Ketilhúsi: Haraldur Ingi Haraldsson – GraN verkefnið

Þriðjudaginn 17. nóvember kl. 17 heldur Haraldur Ingi Haraldsson, verkefnastjóri Listasafnsins á Akureyri, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu, Ketilhúsi undir yfirskriftinni GraN verkefnið – grafískur 3æringur. Í fyrirlestrinum fjallar hann um Grafík Nordika verkefnið og þá norrænu samvinnu sem liggur að baki sýningarinnar GraN 2015 sem nú stendur yfir í Listasafninu á Akureyri, en þar má sjá tæplega 100 verk 24 grafíklistamanna frá öllum Norðurlöndunum. Auk þess mun Haraldur Ingi tala um skipulagningu á frekara norrænu samstarfi.

Haraldur Ingi Haraldsson útskrifaðist úr nýlistadeild Mynd- og handíðaskóla Íslands 1982 og frá Akademie voor Beeldende Kunst í Enschede í Hollandi 1985. Hann er stjórnarmaður í GraN félaginu og fyrsti forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri.

Fyrirlesturinn er sá áttundi í röð fyrirlestra sem haldnir verða á hverjum þriðjudegi í Listasafninu, Ketilhúsi í allan vetur. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Næstu fyrirlesarar eru í tímaröð Margrét Elísabet Ólafsdóttir, Þórhallur Kristjánsson og Guðrún Pálína Guðmundsdóttir.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com