þráhyggja Augans

Þráhyggja augans – Sýningaropnun 26.júní í Miðstöð einkasafnsins

Þráhyggja augans – Persistence of vision
Arna Guðný Valsdóttir 1963
Sýning í Miðstöð Einkasafnsins

Opnun föstudaginn 26.júní kl. 16.00 – 19.00.
Sýningin er einnig opin laugardaginn 27.júní og sunnudaginn 28.júní frá kl. 14.00 – 17.00.

Hreyfing í myndfleti heillar mig og verk mín byggja oft á videotökum, myndvörpun og myndblöndun í rými. Sagt er að að kvikmyndin verði til í auganu… sá eiginleiki augans er kallaður Persistence of vision. Augað man mynd í sekúndubrot eftir að hún hefur verið fjarlægð. Ef nýrri mynd er komið fyrir á þessu sekúndubroti býr augað til hreyfingu á milli þessara tveggja mynda.

Í Miðstöð Einkasafnsin set ég mér að vinna með kvikmyndina í auganu. Ég ætla að horfa og horfa og reyna að standa augað að verki. Leggja raftæknina til hliðar og reyna að finna einfalda leið til að varpa ljósi á litlu hversdagskvikmyndirnar sem verða til þegar við horfum í kyrrð á fyrirbæri tilverunnar. Í lokin býð ég til samsætis þar sem við getum horft saman og
mun ég þá reyna að deila með ykkur því sem ég hef orðið áskynja.

Sýningin er afrakstur vinnustofudvalar í Miðstöð Einkasafnsins sem Aðalsteinn Þórsson hefur byggt upp í fallegum lundi í landi Kristness í Eyjafirði.

Vefsíða: https://arnavals.net/
Vimeosíða: https://vimeo.com/user4479133

Einkasafnið
Einkasafnið er verkefni myndlistamannsins Aðalsteins Þórssonar. Í þessu verki gengur hann út frá því að afgangar neyslu sinnar séu menningar verðmæti. Á svipaðan hátt og litið er á hafðbundna sköpun, afganga hugans sem menningarverðmæti. Vorið 2017 byrjaði Aðalsteinn að byggja Miðstöð Einkasafnsins, heimili þess þar sem hægt er að sjá safnkostinn til frambúðar. Stefnt er að því að Miðstöð Einkasafnsins verði sjálfbær eining
hvað varði orkuöflun og meðferð úrgangs. Leitast er við að Einkasafnið gefi eins heillega mynd af fyrirferð einstaklings í umhverfinu og nokkur kostur er og skoðar um leið áhrif þessarar fyrirferðar á umhverfið.

Sýning Örnu er sú fyrsta í sýningaröð þriggja listamanna sem heimsækja Einkasafnið í sumar:
Hrafnkell Sigurðsson mu dvelja og sýna í Einkasafninu fyrri hluta Júlí og Aðalheiður S. Eysteinsdóttir mun dvelja og sýna seinni hluta Júlí. Sýningar þeirra verða auglýstar síðar.

Einkasafnið er 10 km. sunnan Akureyrar og stendur við syðri afleggjara þjóðvegs 822 Kristnesvegar.

Verkefnið er styrkt af Myndlistasjóði.
Vefsíða Aðalsteins: https://steini.art/

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com