Photo (2) (1)

Þórdís Aðalsteinsdóttir – Opnun Myndlistarsýning 31. mars

Opnun 31. mars / 17:00 – Gallerí Irma, Skipholti 33 / bak við Bingo

Það er einstök ánægja að opna sýningu á verki eftir Þórdísi Aðalsteinsdóttur – Rock away from here – í gallerí Irma. Verkið vann Þórdís sérstaklega fyrir rýmið undir áhrifum frá öðru sýningarrými í Reykjavík og skírskotar til þess með ákveðnum og hárbeittum húmor. Listaverk Þórdísar er auðveldlega hægt að staðsetja í ýmiskonar hversdagsleika sem oftast er ýktur með dökkum rómantískum blæ og óheftum kaldhæðnislegum takti.

———-
-Ég ætlaði að teikna andlitsmyndir af starfsfólki fyrirtækisins Gamma og sýna afraksturinn undir sýningarstjórn Katrínar Ingu Jónsdóttur Hjördísardóttur:
„Ég hef ekki fengið nægar upplýsingar um þetta fyrirtæki, ekki frekar en annað svosem. Með því að vinna þessar andlitsmyndir vonast ég til þess að öðlast dýpri skilning á fyrirbærinu. Rannsóknir sýna að með því að vinna skyssur og texta í höndunum, frekar en í tölvu, virkji manneskjan betur skilninginn í heilanum, ímyndunaraflið og væntumþykjuna. Aðferðina mun ég nýta mér og leyfi mér að vona að ég verði sá aðili sem leitað er til ef upplýsingar vantar um Gamma.“
Þetta var planið en það fór eilítið á annan veg, ég missti móðinn eftir nokkrar teikningar. Birgir Snæbjörn hélt frábæra sýningu með málverkum af Alþingismönnum stuttu eftir að ég byrjaði að teikna Gamma fólkið. Svo fékk ég andúð á fyrirmennaportrettum. Ég var alltaf að kenna og náði ekki endum saman né á vinnustofuna og vildi allt í einu frekar gera andlitsportret af barnaskólakennurum heldur en fjármála-einhverju. En svo gerði ég veggverk.
Nina Simone syngur:
Goin’ down to the river. Gonna take my ol’ rockin’ chair.
And if the blues don’t leave me, I’ll rock away from there.

-Þórdís Aðalsteinsdóttir, mars 2017
———-

Þórdís Aðalsteinsdóttir (f.1975) útskrifaðist með MFA í myndlist frá School of Visual Arts 2003. Þórdís hefur haldið fjölda einka -og samsýninga víða um heim.


————
Irma Studíó hefur tekið á það ráð að skapa sýningavettvang innan veggja fyrirtækisins og skapa þannig tækifæri fyrir aukinn sýnileika listar í samfélaginu og því ber að fagna. Það er vöntun á sýningarrýmum í Reykjavík samhliða stígandi fjölgun listamanna á Íslandi – Listaháskólinn framleiðir listamenn sem síðan dreifa sér um allt samfélagið í hin ýmsu störf – Irma studio er eitt af þeim fyrirbærum sem listamenn laðast að – þar sem þekkingu þeirra og kunnáttu er tekið fagnandi og nú tekur Irma skrefið til fulls og býður listamönnum óháðan sýningarvettvang. 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com