Reykholt GOsk Minni.focus None.width 1000

Þjóðminjavörður heldur fyrirlestur í Snorrastofu Reykholti

Fyrirlestrar í héraði: Þjóðminjar og Þjóðminjasafn Íslands fyrr og nú

 

Framundan er fyrirlestur þjóðminjavarðar, Margrétar Hallgrímsdóttur, um höfuðsafn okkar Íslendinga, hlutverk þess og sögu. Margrét flytur fyrirlesturinn í Bókhlöðu Snorrastofu í Reykholti, þriðjudaginn 31. október næstkomandi kl. 20:30.

Þjóðminjasafn Íslands var stofnað árið 1863 á tímum sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Frá þeim tíma hefur stofnunin mótast með samfélaginu og leggur nú áherslu á víðsýni og hið þjóðlega í alþjóðlegu samhengi. Margrét kynnir bók sína, Þjóðminjar og stiklar á stóru í sögu samfélagsþróunar og hlutverks höfuðsafns þá og nú. Sjónum verður beint að hlutverki stofnunarinnar á sviði þjóðminjavörslu, varðveislu, rannsókna og miðlunar. Margrét fléttar inn í fyrirlestur sinn frásögn af fornleifarannsókninni í Viðey á árunum 1987-1995, en Þjóðminjasafni Íslands er ætlað að varðveita gögn og jarðfundna gripi allra fornleifarannsókna á Íslandi. Í Viðey átti Snorri Sturluson sín spor þegar hann stóð ásamt Þorvaldi Gissurarsyni að stofnun klausturs þar.

Margrét Hallgrímsdóttir hefur helgað starfsferil sinn rannsóknum og minjavörslu. Hún stjórnaði fornleifarannsókn í Viðey, sem fram fór á árunum 1987-1995, var borgarminjavörður 1989-2000 og síðan þjóðminjavörður. Hún sótti víðtæka menntun sína til Háskóla Íslands og Stokkhólmsháskóla og hefur ritað um málefni þjóðminjavörslu og fornleifarannsókna og látið víða til sín taka á þeim vettvangi.

Fyrirlesturinn hefst að venju kl. 20:30 þar sem boðið er til umræðna og kaffiveitinga. Aðgangur er kr. 500.

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com