Warrior, Sci-fi

ÞESSI EYJA JÖRÐIN opnar í Ljósmyndasafni Reykjavíkur

Þessi eyja jörðin er yfirskrift samsýningar sem opnuð verður í Ljósmyndasafni Reykjavíkur kl. 15 laugardaginn 20. janúar 2018. Á sýningunni beina fimm ljósmyndarar búsettir á Íslandi sjónum að náttúrunni.

Frá upphafi hefur landslagsljósmyndun verið ráðandi í íslenskri ljósmyndalist og gegnt því meginhlutverki að kynna Ísland á alþjóðavettvangi og styðja þjóðernisvitund Íslendinga. Þessi grein gegnir enn afar mikilvægu hlutverki innan ljósmyndalistarinnar. Á Þessi eyja jörðin beitir hver listamaður afar persónulegri aðferð sem skapar fjölbreytni í myndbyggingu og áferð verkanna á sýningunni. Verkin, sem bæði eru ljósmyndir og myndbönd, eiga það sameiginlegt að öll eru þau prófsteinar á veruleikaskynjun okkar þegar kemur að myndheimi náttúru og landslags.

Þeir sem eiga verk á sýningunni eru: Stuart Richardson, Kristín Sigurðardóttir, Claudia Hausfeld, Pétur Thomsen og Hallgerður Hallgrímsdóttir.

„Þessi eyja jörðin fjallar um íslenska náttúru í ljósmyndalist samtímans. Eitt af undrunarefnum íslenskrar listasögu er að ljósmyndunin er eldri en málaralistin. Frá upphafi hefur landslagsljósmyndun verið ráðandi í íslenskri ljósmyndalist og gegnt því lykilhlutverki að kynna Ísland á alþjóðavettvangi og viðhalda þjóðernisvitund Íslendinga. Undanfarinn áratug hefur kvikmyndaiðnaðurinn sýnt ókunnuglegu landslaginu á Íslandi vaxandi áhuga, með augljósri tilhneigingu til að nota það sem baksvið fyrir sögur af ætt vísindaskáldskapar um geimferðir og framandi reikistjörnur. Það er kannski ekki að undra þar sem geimfarar frá Geimrannsóknastofnun Bandaríkjanna, NASA, æfðu sig í íslensku hrauni fyrir akstur á fjórhjólavagni á tunglinu. Það er því kannski engin tilviljun heldur að heiti sýningarinnar – Þessi eyja jörðin – er fengið frá gamalli Hollywoodkvikmynd úr flokki vísindaskáldskapar. Enda þótt atriðin frá reikistjörnunni Metalúnu hafi verið tekin upp í kvikmyndaveri, hefði allteins verið hægt að mynda þau á vettvangi úti í hrauni í útjaðri Reykjavíkur.“

– Katrín Elvarsdóttir, sýningarstjóri.

Nánari upplýsingar um sýninguna og listamennina er að finna hér:

http://borgarsogusafn.is/is/ljosmyndasafn-reykjavikur/syningar/samsyning-thessi-eyja-jordin

Sýningin er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands. Sýningin stendur til 6. maí 2018.

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com