Bbb Mynd

Það skrjáfar í nýjum degi

Það skrjáfar í nýjum degi

Bjarni Bernharður Bjarnason  opnaði málverkasýningu
Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi
þann  7. maí.

Bjarni Bernharður Bjarnason (f.1950) er jafnvígur á ritlist og myndlist. Hann hefur gefið út fjölda ljóðabóka og á síðasta ári gaf hann út æviminningar sínar í bókinni Hin hálu þrep – Lífshlaup mitt. Lífið hefur ekki alltaf leikið við Bjarna en listin hefur hjálpað honum að ástunda sjálfskönnun um leynda kima sálarlífsins.

Það skrjáfar í nýjum degi er yfirskrift málverkasýningar sem opnar í Gerðubergi laugardaginn 7. maí kl. 14.  Bjarni Bernharður er sjálfmenntaður myndlistarmaður sem hefur vakið athygli fyrir djarfar litasamsetningar í samspili við mjúkar línur sem hverfast um strigann.

Efnistökin í málverkum Bjarna Bernharðar spanna vítt svið en hafa þó öll í sér þræði abstraktsjónar. Verk hans eru tilfinningarík og kröftug og tærleiki litanna nýtur sín í afmörkuðum litaflötum.
Bjarni Bernharður er óvenjulegur málari en það kann að skýrast af þeim leiðum sem hann hefur farið til að ná tökum á málverkinu, þ.e.a.s. sjálfsmenntun sú sem hann hefur ástundað, sem hefur gert strangar kröfur um þekkingu og rýni á verkum annarra málara. Þó er ekki svo að stíllinn sé undir sterkum áhrifum frá öðrum, heldur hefur Bjarna Bernharði tekist að „finna sjálfan sig “ í málverkinu og bera verkin sterk persónueinkenni.

Á bókasafninu geta gestir gluggað í úrval ljóðabóka og æviminninga sem Bjarni Bernharður hefur gefið frá sér í gegnum tíðina og stillt er út í tilefni af sýningunni.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com