Sigtryggur Bjarni Baldvinsson, Merlandi Héðinsfjarðarvatn 1, 2018, Olía á Striga, 190 X 250 Cm Webversion

Sýningin Útvarp Mýri opnar í Hverfisgalleríi laugardaginn 8. desember

Á laugardaginn kemur, 8. desember kl 16.00, opnar einkasýning Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar, Útvarp Mýri í Hverfisgalleríi, en á sýningunni er að finna bæði olíumálverk og vatnslitamyndir sem vitna á áhrifaríkan hátt í dulúð og hljóðláta fegurð hins íslenska mýrlendis, litadýrðina og gróðurinn sem þar er að finna.

Þetta er þriðja einkasýning Sigtryggs Bjarna í galleríinu en verk hans hafa verið sýnd á einkasýningum og samsýningum á helstu söfnum hérlendis.
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, lektor við Listaháskóla Íslands, skrifar í sýningarskrá: „Fegurð lýsir ákveðnum tengslum sem við getum valið að vera í við veruleikann. Við höfum öll hæfileikann til að tengjast því sem við skynjum á þennan hátt, en að misjöfnu marki hefur hann dofnað hjá mörgum einhvers staðar á lífsleiðinni eða skólagöngunni. Við hættum að sjá fegurðina í öðru en því sem okkur er sagt að sé fallegt. Mikilfenglegir fossar, litskrúðug háhitasvæði, hvítir jöklar, mosagrónar hraunbreiður, stórskornar strendur, er ef til vill það fyrsta sem okkur dettur í hug þegar við tölum um að íslenskt landslag búi yfir einstakri fegurð. Mýri er „bara mýri“. En ef betur er að gáð, getum við líka fundið fegurðina í mýrinni, ef við skynjum hana bara til að skynja. Þá skynjum við kannski að mýrin er ekki „bara mýri“, heldur er hún lifandi veröld sem syngur.”
Síðustu árin hefur Sigtryggur einbeitt sér að því að gera stökum náttúrufyrirbrigðum í málverki, vatnslitamyndum og ljósmyndum. Hann leitast við að draga fram eðlisþætti svo sem hljómfall og takt og myndgera þá síkviku mynsturgerð sem taka má eftir í laufskrúði, gróðurþekjum, vatnsflötum og straumkasti rennandi vatns. Mynsturnet sjávarlöðurs og „regluleg óregla“ ljósbrots sólar á haffleti hafa verið rannsóknarefni og byggingarstoðir málverka hans.

Sýningin Útvarp Mýri stendur til 2. febrúar 2019. Hverfisgallerí er við Hverfisgötu 4

Frekari upplýsingar má finna á síðu Hverfisgallerís: www.hverfisgalleri.is

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com