D69d7c03 E207 4e52 89ab 9b99a57e0cc8

Sýningin Staðsetningar og myndlistarratleikur í Gerðarsafni á laugardag kl 13-15

Ratleikur í Gerðarsafni
laugardaginn 14.október kl. 13-15

Fjölskyldufólki er boðið að taka þátt í myndlistarratleik á sýningunni Staðsetningar í Gerðarsafni Kópavogi þann 14. október næstkomandi. Útgangspunktur sýningarinnar er landslagsmálverk og eru ný verk Einars Garibalda og Kristjáns Steingríms í aðalhlutverki. Ratleikurinn stoppar við á Nátturufræðisafni Kópavogs og skoðar nýja sýningu safnsins sem leggur áherslu á jarðveginn en jarðvegurinn er einmitt aðalefniviður málverka Kristjáns Steingríms. Steinar úr náttúru Íslands verða stækkaðir og skoðaðir og málning búin til úr mold.

Nafnasamkeppni listakrákanna

„Listakrákur“ leiða yngri kynslóðina í gegnum ratleikinn. „Listakrákurnar“ tilheyra óútkominni bók listakonunnar Eddu Mac, sem hún vinnur að í samstarfi við Gerðarsafn. Að ratleiknum loknum mun Kristín Dagmar Jóhannesdóttir safnstjóri tilkynna úrslit úr nafnasamkeppni sem fór fram á síðustu fjölskylduhátíð Gerðarsafns. Sigurvegararnir munu fá viðurkenningarskjal og verðlaun frá safninu. Myndlistarratleikurinn miðast við að vera hvort í senn fróðlegur og skemmtilegur og ætti því að höfða til allrar fjölskyldunnar.

Staðsetningar – fyrri hluti
7.10. – 29.10. 2017

Staðsetningar er sýning á verkum Einars Garibalda Eiríkssonar og Kristjáns Steingríms Jónssonar, sem unnið hafa með málverkið um árabil. Einar Garibaldi og Kristján Steingrímur hafa báðir mótað með sér persónulega nálgun í rannsóknum sínum á náttúru, stöðum og staðsetningum. Sett verður upp sýning í tveimur hlutum. Á fyrri hluta sýningarinnar má sjá ný verk listamannanna en á seinni hluta sýningarinnar verður veitt frekari innsýn í vinnuaðferðir og rannsóknir þeirra.

Einar Garibaldi skoðar kennileiti, landakort og merki í náttúrunni og vekur athygli á því hvernig skilningur okkar á umhverfinu mótast og breytist. Leikur hans með landakort og náttúruleg tákn opnar fyrir heimspekilegar samræður um heiminn.

Staður og náttúra í verkum Kristjáns Steingríms hefur tekið sér fótfestu í verkinu sjálfu. Hann ferðast á ákveðna staði og vinnur verkin úr sjálfum jarðveginum. Í stað þessa að mála mynd af staðnum, málar hann „með“ sjálfum staðnum.

Sýningarstjórar eru Jón Proppé og Kristín Dagmar Jóhannesdóttir.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com