Kapall Web 2018

Sýningin K A P A L L opnar og 20 ára starfsafmæli Skaftfells fagnað

Sýningin K A P A L L opnar og 20 ára starfsafmæli Skaftfells fagnað

Laugardaginn 16. júní opnar í Skaftfelli, myndlistarmiðstöð Austurlands, sýningin K A P A L L. Á sýningunni er varpað ljósi á þær miklu breytingar og framfarir sem samskiptatæknin hefur haft í för með sér. Til sýnis eru ný og eldri verk eftir fimm íslenska listamenn: Sigurð Guðjónsson,Tuma Magnússon, Unnar Örn, Þórdísi Aðalsteinsdóttur og Þórdísi Jóhannesdóttur. Sýningarstjórar eru Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir.

K A P A L L er 20 ára afmælissýning Skaftfells. Stofnun miðstöðvarinnar var á sínum tíma samfélagsátak og frumkvæðisvinna af hálfu nokkurra einstaklinga sem vildu efla menningarlíf á Seyðisfirði. Á síðustu tveimur áratugum hefur miðstöðin sinnt mikilvægu og metnaðarfullu listrænu starfi og hefur fyrir löngu sannað sig sem ein af máttarstólpum í menningarlífi Austurlands. Kjarnastarfsemi Skaftfells er sýningarhald, rekstur gestavinnustofa fyrir alþjóðlega listamenn og fræðslustarf fyrir börn og fullorðna, með það að leiðarljósi að auka aðgengi Austfirðinga að vandaðri samtímalist, dýpka þekkingu og skilning á hlutverki myndlistar í samtímanum og skapa örvandi vinnuumhverfi fyrir listamenn.

Fyrir 20 ára afmælissýningu Skaftfells var tekið upp á þeirri nýbreytni að auglýsa eftir tillögum með það að leiðarljósi til að bjóða nýjum aðilum til samtals. Alls bárust rúmlega 30 umsóknir og valdi fagráð miðstöðvarinnar gaumgæfilega tillöguna K A P A L L eftir teymið Aðalheiði Valgeirsdóttur, myndlistarmann, listfræðing og sýningarstjóra og Aldísi Arnardóttur, listfræðing og sýningarstjóra.

K A P A L L hverfist um offlæði upplýsinga og sífellt hraðari samskipti nútímans sem vekur upp hugleiðingu um kapalinn, – strenginn sem símasamskiptin fóru fyrst um á Íslandi fyrir rúmri öld og kom á land á Seyðisfirði. Talsími, jarðsími, sæsími, símskeyti, loftskeyti, örbylgjur, gsm-símar, tölvupóstur, internet, ljósleiðari og stafræn tækni eru allt dæmi um þróun rafvæðingarinnar og það upplýsingaflæði sem einkennir líf okkar í dag. Tækninni fleygir áfram og stöðug framþróun leiðir til þess að það sem er nýtt í dag er úrelt á morgun. Um leið og tæknin tengir okkur við umheiminn hefur hún áhrif á skynjun á tíma, hún gerir okkur auðveldara að tengjast hvert öðru en getur á sama tíma aukið á fjarlægð í samskiptum fólks.

Í mars 2018 komu sýningarstjórarnir, ásamt Þórdísi Jóhannesdóttur, Sigurði Guðjónssyni og Unnari Erni sýningarinnar, í rannsóknarferð til Seyðisfjarðar þar sem meðal annars upprunalegi kapallinn var skoðaður á Tækniminjasafni Austurlands.

K A P A L L er opin daglega frá kl. 12:00-18:00, miðvikudaga til kl. 20:00.

Sýning er styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands, Myndlistarsjóði og Arion banka.

Nánar um sýningarstjórana:

Aðalheiður Valgeirsdóttir er myndlistarmaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist frá grafíkdeild Myndlista-og handíðaskóla Íslands árið 1982 og hefur lokið BA og MA prófi í listfræði frá Háskóla Íslands.  Aðalheiður hefur haldið erindi um myndlist og kennt listfræði í diplómanámi í málaralist í Myndlistaskólanum í Reykjavík auk þess að kenna málun við sama skóla. Hún var sýningarstjóri sýningarinnar Heimkynni/Sigrid Valtingojer í Listasafni Árnesinga 2017. Árið 2016 var hún ásamt Aldísi Arnardóttur listfræðingi sýningarstjóri sýningarinnar Tímalög, Karl Kvaran og Erla Þórarinsdóttir í Listasafni Árnesinga.

Aldís Arnardóttir er sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist með MA gráðu í listfræði við Háskóla Íslands árið 2014 og hafði áður lokið þaðan BA prófi í listfræði, með menningarfræði sem aukagrein árið 2012. Aldís starfar sem myndlistarrýnir Morgunblaðsins og kennir listasögu við Sjónlistadeild Myndlistaskólans í Reykjavík. Hún er sýningarstjóri sýningarinnar Líðandin – la durée á verkum Kjarvals sem stendur yfir á Listasafni Reykjavíkur, Kjarvalsstöðum. Hún hefur sinnt rannsóknarverkefnum tengdum myndlist og skrifað sýningartexta fyrir listamenn og gallerí. Aldís hefur einnig haldið fyrirlestra um myndlist og hlotið styrki til rannsóknarstarfa. Árið 2016 var hún ásamt Aðalheiði Valgeirsdóttur listfræðingi og myndlistarmanni sýningarstjóri sýningarinnar Tímalög, Karl Kvaran og Erla Þórarinsdóttir í Listasafni Árnesinga.

Aðalheiður og Aldís voru einnig sýningarstjórar sýningarinnar Heimurinn án okkar í Hafnarborg 2015, en tillaga þeirra varð fyrir valinu þegar kallað var eftir tillögum að haustsýningu Hafnarborgar.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com