Nína Tryggvadotti Lí 686 Ólafsvík 1942

Sýningin Alls konar landslag opnar og tíunda fræðsluverkefni Skaftfells sett á laggirnar

Laugardaginn 8. september kl. 15:00 opnar málverkasýningin „Alls konar landslag” í sýningarsal Skaftfells. Þar gefur að líta úrval verka eftir Nínu Tryggvadóttur (1913-1968) og Gunnlaug Scheving (1904-1972) í sýningarstjórn Oddnýjar Bjarkar Daníelsdóttur, listfræðings. Langt síðan verk eftir þessa listamenn hafa verið sýnd á Austurlandi, síðast þegar sett var upp sýning í tilefni af 100 ára afmælis Seyðisfjarðarkaupstaðar árið 1996 og voru þá til sýnis nokkur verk eftir Nínu og Gunnlaug.

Sýningin er hönnuð fyrir börn og ungmenni. Í tengslum við hana mun Skaftfell bjóða upp á fræðsluverkefni fyrir nemendur í 5.-7. bekk víðsvegar af Austurlandi, bæði leiðsögn um sýninguna og listasmiðju. Einnig verður boðið upp á fjölskylduleiðsögn alla laugardaga í september kl. 15:00. Bæði sýningin og fræðsluverkefnið eru hluti af nýstofnaðri menningarhátíð barna og ungmenna, BRAS, www.bras.is.

Sýningin var unnin í samstarfi við Listasafn Íslands, Landsbankann, Listasafn Reykjavíkur og Arion banka. Styrktaraðilar eru List fyrir alla og Sóknaráætlun Austurlands.

Í ár fagnar Skaftfell 20 ára starfsafmæli. Stofnun miðstöðvarinnar var á sínum tíma samfélagsátak og frumkvæðisvinna af hálfu nokkurra einstaklinga sem vildu efla menningarlíf á Seyðisfirði. Á síðustu tveimur áratugum hefur miðstöðin sinnt mikilvægu og metnaðarfullu listrænu starfi og hefur fyrir löngu sannað sig sem ein af máttarstólpum í menningarlífi Austurlands. Kjarnastarfsemi Skaftfells er sýningarhald, rekstur gestavinnustofa fyrir alþjóðlega listamenn og fræðslustarf fyrir börn og fullorðna, með það að leiðarljósi að auka aðgengi Austfirðinga að vandaðri samtímalist, dýpka þekkingu og skilning á hlutverki myndlistar í samtímanum og skapa örvandi vinnuumhverfi fyrir listamenn.

Alls konar landslag stendur til 6. október, http://skaftfell.is/allskonar-landslag/

Skaftfell er opið þri-lau, 15:00-18:00, Bistróið er opið lengur.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com