Capture

Sýningaropnun – við mið // at present

Opnun sýningarinnar við mið // at present verður í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar föstudaginn 13. apríl klukkan 17.00.  Við mið // at  present er samstarfsverkefni Listasafns Íslands, Listaháskóla Íslands og listfræði við Háskóla Íslands.

Á sýningunni má sjá  ný verk unnin af meistaranemum í myndlist við Listaháskóla Íslands. Meistaranemar í listfræði við Háskóla Íslands fara með sýningarstjórn. Verk sýningarinnar eru fjölbreytt og víðfem og spanna ólíka efnismeðferð.  Þau eiga það öll sameiginlegt að vera sköpuð sérstaklega inn í rými Listasafns Sigurjóns Ólafssonar. Verkin sem sýnd verða eru innblásin af skúlptúrverkum Sigurjóns, safninu sem tileinkað er honum og staðháttum á Laugarnesinu þar sem safnið er.

Sýningin stendur frá 13.- 22. apríl. Opið er um helgar frá klukkan 14.00-17.00.

Að sýningunni standa Listasafn Íslands, Listasafn Sigurjóns Ólafssonar, Listaháskóli Íslands og listfræði við Háskóla Íslands.

Hugleiðingar sýningarstjóra:

Á sýningunni við mið stendur ekkert í stað. Verkin tengjast handan tungumálsins. Við bjóðum gestum að skyggnast inn í þá sköpun og tjáningu sem á sér stað í hinu efnislega. Hér er samvinnan og hið óljósa samtal í forgrunni sem teygir anga sína bæði aftur í tímann og fram á við. Skúlptúrverk Sigurjóns Ólafssonar, safnið sem ekkja hans Birgitta Spur kom á fót eftir að hann lést, saga staðarins þar sem byggingin stendur, og umhverfi hennar, eru hér uppspretta nýrrar sköpunar. Meistaranemar við Listaháskóla Íslands sýna ný verk sem mæta verkum Sigurjóns í margradda samtali sem ómar út fyrir mörk módernismans og inn í núið.

Byggingin sem í dag hýsir Listasafn Sigurjóns Ólafssonar hefur í gegnum árin tekið breytingum í samræmi við hvaða athafnir eiga sér stað innan veggja hennar. Sem rými verkanna sem hér eru til sýnis fær hún einnig á sig annað yfirbragð. Þegar við erum stödd á sýningunni við mið erum við hluti af síbreytilegu menginu.

Titill sýningarinnar ávarpar þrjú stef í senn – Við: Heildina sem við öll erum hluti af, hrærumst í og snertum. Mið: Grósku fundarstaðarins og samtalið sem skapast við það að leita á ný mið. Viðmið: Fortíðina sem lifir áfram og núið sem er stöðugt að verða til.
Stefin þrjú mætast í verkum sýningarinnar. Fortíðin er lifandi og á sér stað í okkar tíma. Á meðan skapar nútíminn nýjar leiðir. Verkin eru áþreifanleg og bergmála inn í framtíðina.

Listamenn: Guðríður Skugga Guðlaugsdóttir, Katrina Jane Perry, Kimi Tayler, Kirill Lorech, Margrét Helga Sesseljudóttir, Marie Lebrun, María Hrönn Gunnarsdóttir, Pier-Yves Larouche, Ragnheiður Guðmundsdóttir, Sihan Yang og Sigurjón Ólafsson.
Sýningarstjórar: Ásgerður Júníusdóttir, Ragnheiður K. Sigurðardóttir, Sunna Ástþórsdóttir og Þorgerður Þórhallsdóttir.
Verkefnisstjórar: Bryndís H. Snæbjörnsdóttir, fagstjóri meistaranáms í myndlist við Listaháskóla Íslands og Æsa Sigurjónsdóttir, dósent í listfræði við Háskóla Íslands.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com