Hvítfés Tittlingaskítur

Sýningaropnun: Tittlingaskítur, Guðmundar Thoroddsen þann 30. september kl. 16

Fyrsta einkasýning Guðmundar Thoroddsen í Hverfisgalleríi verður opnuð kl 16.00 nk. laugardag, 30. september. 

Á sýningunni, sem ber nafnið Tittlingaskítur, sýnir listamaðurinn klippiverk, málverk og leirskúlptúra.

Í sýningartexta eftir Jón Proppé segir að myndheimur Guðmundar Thoroddsen sé bæði sérstakur og nokkuð sláandi. „Á klippimyndum hans má sjá skrítna karlmenn sem virðast ráfa um í einhvers konar tómi, sumir í jakkafötum og aðrir á nærbuxunum, en öllum virðist þeim mikið niðri fyrir; þeir eru einbeittir og uppteknir af einhverju sem við vitum ekki alveg hvað er. Guðmundur segir sjálfur að þetta séu bara „karlfífl að gera eitthvað sem þeir halda að sé merkilegt en er bara helvítis vitleysa og rúnk.“ Þótt verk Guðmundar séu gamansöm er ómögulegt annað en að sjá í þeim vissa samfélagsgagnrýni – ádeilu á hið karllæga samfélag sem upphefur störf og athafnir karla sem þó reynast ansi oft ekki hafa hundsvit á því sem þeir eru að fást við og klúðrað málum aftur og aftur fyrir sér og öðrum.

Guðmundur Thoroddsen er fæddur 1980 og lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2003 og útskrifaðist með með MFA gráðu í myndlist frá School of Visual Arts í New York  árið 2011. Hann hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér á landi sem og erlendis og fjallað hefur verið um sýningar hans í ýmsum fjölmiðlum s.s. Artforum, The New York Times, Time Out New York og Dazed Digital.Á undanförnum árum hefur Guðmundur verið að skoða karlmennsku og stöðu feðraveldisins, þar sem hann gagnrýnir og hæðist að því á sama tíma og hann upphefur það. Húmorísk og sjálfrýnin verkin eru unnin í fjölbreytta en hefðbundna miðla, s.s. leir, vatnslit, teikningu og málverk. Myndefnið eru gjarnan skeggjaðir karlar sem uppteknir eru við ýmsa iðju á borð við körfuknattleik, bjórbruggun og skotveiðar. Auk þessa má sjá marga þeirra kasta vatni eða leysa vind vítt og breitt um myndflötinn.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com