Listasafnreykjavíkur

Sýningaropnun: Sol LeWitt í Hafnarhúsi

Sýningaropnun: Sol LeWitt
Fimmtudag 13. febrúar kl. 20.00 í Hafnarhúsi

Sýning á verkum bandaríska myndlistamannsins Sol LeWitt verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi fimmtudaginn 13. febrúar kl. 20.00. Þetta er í fyrsta skipti sem verk hans eru sýnd á Íslandi.

Dagskrá opnunarinnar hefst með því að Lindsay Aveilhé sýningarstjóri segir gestum frá listamanninum og ræðir við teiknara um sköpunarferli sýningarinnar. Sýningin er í B og C sölum hússins og fer samtalið fram þar. Hjálmar Sveinsson, formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur opnar sýninguna. 

Sol LeWitt (1928-2007) er þekktur fyrir einstakar veggteikningar, skúlptúra, grafík- og bókverk. Hann telst á meðal frumkvöðla hugmyndalistar og minimalisma. Hugmyndir hans og vinnuaðferðir hafa haft mikil áhrif á listir samtímans og verk hans hafa verið sýnd á mörgum af helstu sýningarstöðum heims. Sýningin í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi er einstakt tækifæri til að kynnast viðamiklum veggteikningum Sol LeWitt og verkum unnum á pappír. 

Veggteikningar Sol LeWitt hafa verið listheiminum áskorun frá því á sjöunda áratug síðustu aldar. Þá hóf hann að vinna verk byggð á teikningum sem síðan voru útfærðar á hverjum sýningarstað fyrir sig samkvæmt nákvæmum útreikningum. Þessi verk byggðu á samstarfi hans við aðra listamenn þar sem stærð og umfang verkanna er langt umfram það sem einn maður getur afkastað.

Veggteikning #415 A, 1984/2020. Úr safneign Liliana Tovar Collection, Stokkhólmi.
Ljósmynd: Vifús Birgisson

Frá því í byrjun janúar hefur her manns unnið að uppsetningu á verkum Sol LeWitt. Verkin eru unnin beint á veggi sýningarsalanna í Hafnarhúsinu. Fimm manna teymi, sem setur upp verk listamannsins um allan heim, hefur haft aðsetur í Reykjavík um mánaðarskeið og með þeim eru fimmtán starfsnemar sem koma úr öllum áttum til þess að taka þátt í vinnunni. 
Hópurinn hefur unnið sleitulaust að uppsetningu sýningarinnar og notað til þess ýmsar aðferðir og allra handa verkfæri, eins og blýanta, blek, tuskur, vaxliti og fleira. 

Afraksturinn er áhrifamikil upplifun af einstökum verkum sem unnin eru eftir nákvæmum leiðbeiningum listamannsins sjálfs. Áhrif sýningarinnar eru margslungin og eitt af því sem gerir hana ekki hvað síst áhugaverða er sú mikla vinna sem lögð er í verkin, áhrifamikil upplifun rýmisins og síðan hverfulleiki þeirrar orku sem lögð var í sköpunina þar sem verkin hverfa að sýningartíma loknum. Verk Sol LeWitt lifa í teikningum og fyrirmælum, fyrirmælum sem stundum eru sýnileg í verkunum sjálfum.

Sol LeWitt fæddist árið 1928 í Hartford í Bandaríkjunum og lést árið 2007 í New York, 78 ára að aldri. Hann er talinn einn helsti forvígismaður hugmyndalistarinnar, alþjóðlegrar hreyfingar sem hófst á sjöunda áratugnum. Í hugmyndalist hans eru allar ákvarðanir og skipulag listaverksins fyrirfram ákveðið og svo vitnað sé í hann sjálfan „verður hugmyndin að vél sem býr til verkið.“

Listaverk Sol LeWitt eru í eigu hundruða listasafna um allan heim. Til marks um hversu viðamikið verkefni það er að setja upp sýningu sem þessa má geta þess að nú stendur yfir yfirlitssýning með yfir 100 veggteikningum í Massachusetts Museum of Contemporary Art – og ráðgert er að hún verði uppi til ársins 2043!

Sýningarstjóri Sol LeWitt sýningarinnar í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi er Lindsay Aveilhé, ritstjóri Sol LeWitt Raisonné veggteikningalistans (yfirlitsskrá veggteikninga). Úrval bókverka Sol LeWitt var skipulagt í samstarfi við Emanuele De Donno og VIAINDUSTRIAE.

Sýningin stendur til 24. maí 2020

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com