Listasafn Reykjavíkur

Sýningaropnun: Núna norrænt / Now Nordic Saga norrænnar samtímahönnunar frá fimm löndum Laugardag 23. mars kl. 15.00 í Hafnarhúsi

Laugardag, 23. mars kl. 15.00 verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, hönnunarsýningin Núna norrænt / Now Nordic.

Sýningin er haldin í tengslum við HönnunarMars í Reykjavík. Sýnd er norræn samtímahönnun frá fimm löndum undir stjórn danska fyrirtækisins Adorno sem starfar að kynningu hönnunar á heimsvísu.

Sýnd er samtímahönnun frá Noregi, Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku og Íslandi. Í hugum margra er hugtakið „norrænn“ orðið nokkurs konar samheiti yfir látlausan einfaldleika, augljóst notagildi og náttúruleg efni – en er sú merking orðsins enn í gildi? 

Verkefnið Now Nordic er þróað í samvinnu virtra sýningarstjóra frá öllum löndunum fimm og til sýnis eru munir frá upprennandi og nafnkunnum hönnuðum sem vinna á mörkum listar, hönnunar og hannyrða.

Til sýnis verða fimm hönnunarlínur, ein frá hverjum hinna fimm norrænu hönnunarheima, ásamt sex stuttmyndum þar sem eru viðtöl við hönnuðina sem taka þátt, sýningarstjóra og aðra sérfræðinga frá Norðurlöndunum.

Sýningunni er ætlað að kynna þá fjölbreytni, vídd og metnað sem norræn hönnun býr yfir – og kanna hvort það sem hefur einkennt norræna hönnun í aldanna rás sé enn til staðar í síbreytilegum heimi hnattrænnar sköpunar.

Sýningin Now Nordic var sett upp á Chart Art listamessunni í Kaupmannahöfn í ágúst 2018, og á Hönnunarsýningunni í London í september í fyrra.

Sýningarstjórar & hönnuðir
Sýningarstjóri línunnar frá Kaupmannahöfn er Pil Bredahl og hönnuðirnir eru sjö: Alexandru Murar, Astrid Tolnov, Gurli Elbækgaard, Jonas Edvard, Netter Andresen, Nikolaj Steenfatt og Stine Linnemann. 

Sebastian Jansson er sýningarstjóri hönnunarlínunnar frá Helsinki og teflir frma fjórum hönnuðum; Aalto+Aalto, Hanna Anonen, Maija Puoskari og Tero Kuitunen.

Sýningarstjórar reykvísku línunnar eru þær Hlín Helga Guðlaugsdóttir og María Kristín Jónsdóttir. Hönnuðir og hönnunarteymi eru átta talsins; Garðar Eyjólfsson, Hugdetta ásamt 1+1+1, Magnús Ingvar Ágústsson, Ragna Ragnarsdóttir, Studio Brynjar & Veronika, Studio Flétta, Studio Hanna Whitehead og Tinna Gunnarsdóttir.

Sýningarstjórarnir Kråkvik og D´Orazio setja saman línuna frá Ósló með fjórum hönnuðum og hönnunarteymum; Cosmin Cioroiu & Kathrine Lønstad, Kim Thomé, Pettersen & Hein og Runa Klock.

Rebecca Ahlstedt er sýningarstjóri hönnunarlínunnar frá Stokkhólmi með fimm hönnuði og hönnunarteymi; Elsa Chartin, Fredrik Farg & Emma Maria Blanche, Lith Lith Lundin, Lotta Lampa og Sara Lundkvist.


Kaupmannahöfn
„Aðaltilgangurinn og sagan á bak við línuna frá Kaupmannahöfn tengist hinu sterka einstaklingseðli allra hönnuðanna, en snýst einnig um það að öll hafa þau mikið næmi fyrir efninu og vinna á einstakan hátt með ljóð og sögur í áþreifanlegum hlutum.”
 – Pil Bredahl, sýningarstjóri.

Gurli Elbækgaard lærði keramíklist við Kolding listaskólann í Danmörku og Lista- og hannyrðaskólann í Björgvin, en það voru norsku fjöllin sem drógu fram listamannseðli hennar fyrir alvöru. Hún segir: „Noregur virkjaði listagáfu mína því að náttúran er svo afskaplega frábrugðin Danmörku. Fjöll, lækir, klettar og skógar flæddu inn í leirinn og gæddu hann lífi.”

Helsinki
„Það sem einkennir finnska hönnun er fyrst og fremst hve hagnýt og í víðum skilningi tengd gagnsemishyggju hún er í samanburði við marga menningarheima Suður-Evrópu þar sem ljóðrænan er mun meira áberandi … til dæmis hjá Tero Kuitunen, sem bætir svo miklu nýju við, með húmorinn að vopni, og þannig verður til eitthvað óskaplega dýrmætt … eins og að bæta kögri á spegil, sem færir arfleifðina skrefi framar.”
– Sebastian Jansson, sýningarstjóri.

Hönnun Teros Kuitunen er undir áhrifum frá heimsókn hans í vefnaðarvöruverslun í Girona á Spáni, þar sem hann féll í stafi yfir litadýrð og áþreifanleika vefnaðarins og hóf að gera tilraunir með ýmsa möguleika á óvæntum litasamsetningum. Kögrið vekur Kuitunen minningar um efnismikla lampaskermana í stofunni hjá ömmu hans – og hina óviðráðanlegu þrá sem maður verður gripinn við að renna fingrunum í gegnum það.

Reykjavík
„Er til eitthvert séríslenskt efni? Þið vitið, við höfum ullina, við höfum hraunið – sem við erum reyndar ekki mjög hrifin af, okkur finnst það hálfpúkalegt … Ég hef stundum velt því fyrir mér hvenær við ætlum að byrja að dásama okkar eigin hefðbundna menningararf og fá innblástur þaðan í hönnun okkar og framleiðslu.”
– Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

„Hjá hönnuðum á borð við Rögnu Ragnarsdóttur, sem vinna með óhefðbundið efni af íslenskum hönnuði að vera, má samt sjá hvernig íslenskt landslag líkt og birtist í verkunum.”
– Hlín Helga Guðlaugsdóttir og María Kristín Jónsdóttir, sýningarstjórar.

Ragna Ragnarsdóttir hefur rannsakað mörkin á milli hönnunar og framleiðslu og skapað ferli þar sem framleiðslan verður hluti af sjálfri hönnuninni. „Barrier Screen er lóðrétt skilrúm sem hægt er að brjóta saman. Öðrum megin er efnið lagt á sérstakan hátt til að búa til mynd, hinum megin fær efnið að flæða um og það skapar óhlutbundið landslag.”

Ósló
„Þótt norsk hönnun geti oft verið galsafull má alltaf sjá norræna arfinn í henni, og ég held að hið sama gildi um alla norræna hönnun, með einfaldleikann, heiðarleikann og efnið, hvernig hönnuðir vinna með efnið, þeir munu alltaf bera með sér þennan norræna menningarheim.” 
– Kråkvik & D´Orazio, sýningarstjórar.

„Þegar mörk hönnunar og listar eru máð út geta töfrar gerst.” Norski skúlptúristinn Magnus Pettersen og danski hönnuðurinn Lea Hein sameina þessa tvo heima með því að nota liti og form til að umbreyta iðnaðarefni á borð við steypu og járn. Lea Hein lýsir þessu einstaka samstarfi þannig: „Þegar við Magnús vinnum saman erum við alltaf með eitthvað ákveðið í huga í byrjun en svo gerist ýmislegt í ferlinu því að Magnús er mun afslappaðri og vill prófa sig áfram, ég hugsa hlutina meira eina og hönnuður.”

Stokkhólmur
„Sænsk hönnun eins og við sjáum hana nú á dögum á sér greinilega rætur í galsafullum, einföldum viðfangsefnum, afar vönduðu handbragði og áhuga á náttúrulegum efnum eins og viði og vefnaði … Ég vildi að sænska línan sýndi fjölbreytni í einstaklingseinkennum og efnisvali.”
– Rebecca Ahlstedt, sýningarstjóri.

Þessi tilraunastarfsemi, sérstaklega varðandi vefnaðinn, sést greinilega í verkum Emmu Blanche og Fredriks Färg, sem oft hafa vandað en gáskafullt yfirbragð. Til dæmis eru stólarnir í línu þeirra, Succession, klæddir með leðri og vefnaði sem hefur verið hnýtt saman með reipi og síðan bakað, til að skapa ný form. Með orðum Fredriks: „Ég held að innblástur okkar komi frekar frá Emmu og frönskum uppruna hennar heldur en frá Svíþjóð, og ég vona að hið gagnstæða gildi fyrir hana.”

Um Adorno  
Adorno var stofnað í Kaupmannahöfn árið 2017 af hönnunarunnendunum og tæknifrumkvöðlunum Kristian Snorre Andersen og Martin Clausen. Markmiðið með stofnun fyrirtækisins var annars vegar að gefa hönnuðum um allan heim tækifæri til þess að kynna sig fyrir umheiminum og hinsvegar að gera unnendum hönnunar kleift að uppgötva og eignast einstök verk sem framleidd eru í takmörkuðu upplagi.

Með því að byggja upp tengslanet sérfróðra sýningarstjóra á sviði hönnunar um allan heim, hefur fyrirtækinu ekki aðeins tekist að viðhalda ströngum gæðastaðli heldur einnig að veita samfélaginu einstaka innsýn inn í þá sérhæfingu og þróun sem á sér stað í hönnun um allan heim.   

Vefsíða adorno.design 
Instagram @adorno.design 
Facebook designadorno

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com