ásmundarsafnlogo

Sýningaropnun – Jóhann Eyfells: Áþreifanlegir kraftar Laugardag 15. júní kl. 16.00 í Ásmundarsafni

Sýning á verkum Jóhanns Eyfells í Ásmundarsafni. Sýningin er sú þriðja í röð einkasýninga fimm listamanna sem eiga það sameiginlegt að hafa skapað áberandi útilistaverk í borginni.

Verk Jóhanns á sýningunni kallast á við verk hans í almannarými í Reykjavík hvað varðar form, inntak og efni. Á sýningunni er að finna verk bæði úr safneign Listasafns Reykjavíkur en einnig úr einkaeigu og frá öðrum stofnunum. Listasafn Íslands lánar þar á meðal verkið Flatt sem flatt sem teningur en það er eitt þeirra verka sem Jóhann sýndi á Feneyjatvíæringnum þegar hann var fulltrúi Íslands þar ásamt Hreini Friðfinnssyni árið 1993. Þá er á sýningunni meðal annars að finna lágmynd sem kallast Singularity frá árinu 1981. Lágmyndina var að finna á byggingu Rafmagnsveitu Reykjavíkur sem áður var og hét. Það verk hefur ekki komið fyrir almenningssjónir síðan það var tekið niður rétt fyrir aldamót þegar Orkuveita Reykjavíkur varð til.  

Jóhann Eyfells er fæddur árið 1923. Hann lagði fyrst stund á arkitektúr og útskrifaðist af því sviði árið 1953. Árið 1964 útskrifaðist hann með meistaragráðu í myndlist. Árið 1969 var hann ráðinn sem prófessor í skúlptúr við University of Central Florida. Hann hefur æ síðan verið búsettur í Bandaríkjunum, lengst af í Florída.

Jóhann hefur notið umtalsverðrar virðingar fyrir verk sín og vinnubrögð. Hann byrjaði snemma á sjötta áratugnum að skapa abstrakt skúlptúra sem byggðust á tilraunum í eðlis- og efnafræði og sérstaklega umbreytingu málma við bræðslu og steypun. Tilraunir leiddu Jóhann að hugmyndakerfi og stíl sem hann kallar „receptúalisma“ en þar renna að hans sögn þrjú kerfi í eitt: Vísindi, heimspeki og dulhyggja.

Listamennirnir sem sýna í sýningaröðinni í Ásmundarsafni á árinu, eftir að sýningu Jóhanns lýkur, eru Helgi Gíslason og Ólöf Nordal. 

Sýningarstjórar eru Sigurður Trausti Traustason og Yean Fee Quay.

Árið 2019 er ár listar í almannarými hjá Listasafni Reykjavíkur og er sýningin liður í því markmiði safnsins að beina sjónum manna að þeim listaverkum sem við njótum sem hluta af daglegu lífi

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com