C84c07a9 4983 42de B968 9335dafec5cd

Sýningaropnun – Innrás III: Matthías Rúnar Sigurðsson í Ásmundarsafni

Sýningaropnun – Innrás III: Matthías Rúnar Sigurðsson
Laugardag 18. ágúst kl. 15.00 í Ásmundarsafni

Sýningin Innrás III með verkum eftir Matthías Rúnar Sigurðsson verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Ásmundarsafni, laugardag 18. ágúst kl. 15.00.

Innrás III – Matthías Rúnar Sigurðsson 

Þriðji innrásarliðinn á sýningunni List fyrir fólkið í Ásmundarsafni er Matthías Rúnar Sigurðsson (f. 1988). Matthías er að vinna sér inn nafn sem myndhöggvari í fyllstu merkingu orðsins. Verkin á sýningunni hefur hann höggvið í grágrýti, granít og gabbró. Úr grjótinu sprettur líf; kynjaverur sem taka á sig margskonar form; menn, dýr og óræðir karakterar. Öll bera þau sterk höfundareinkenni myndhöggvarans þar sem hann beislar sköpunarkraft sinn og vinnugleði.

Matthías Rúnar býr og starfar í Reykjavík og útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2013. Síðan þá hefur hann verið ötull í sýningarhaldi og tekið þátt í grasrótarstarfi. Má þar nefna sýningar í Ekkisens, Gallery Port, Safnasafninu á Svalbarðsströnd og einkasýningu í SÍM salnum. Innrás Matthíasar í Ásmundarsafn byggir á klassískri handverksnotkun þar sem hann stillir hoggnum verkum sínum upp í samtali við verk Ásmundar Sveinssonar á áhugaverðan hátt.

Sýningarstjóri er Sigurður Trausti Traustason. Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, opnar sýninguna.

Sunnudag 2. september kl. 14.00 verður listamaðurinn með leiðsögn um sýninguna.

Fjórar INNRÁSIR eru gerðar inn í sýninguna List fyrir fólkið á árinu 2018, þar sem völdum verkum Ásmundar Sveinssonar er skipt út fyrir verk starfandi listamanna. Fyrstu tveimur innrásunum er nú lokið, en þar sýndu Guðmundur Thoroddsen og svo í kjölfarið Hrafnhildur Arnardóttir / Shoplifter. Sýning Matthíasar Rúnars Sigurðssonar stendur til 4. nóvember en þá tekur við Margrét Helga Sesseljudóttir. Öll vinna þau skúlptúra í ólík efni og veita verk þeirra áhugaverða sýn á stöðu þrívíðrar myndlistar, efnisval og viðfangsefni.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com