Sýningaropnun í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar 31. janúar kl 15. „Listamaður á söguslóðum“


Listamaður á söguslóðum –
Johannes Larsen á Íslandi 1927 og 1930

Laugardaginn 31. janúar kl. 15 verður opnuð í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar sýning á pennateikningum eftir danska málarann Johannes Larsen, sem hann gerði á ferðum sínum um Ísland árin 1927 og 1930.

Árið 1926 stóðu rithöfundarnir Gunnar Gunnarsson og Johannes V. Jensen fyrir því að gefa út danska þýðingu Íslendingasagna í tilefni þess að árið 1930 voru eitt þúsund ár liðin frá stofnun Alþingis á Þingvöllum.Danski listmálarann Johannes Larsen (1867-1961) var fenginn til að fara til Íslands og festa á teikniblokk sína helstu sögustaði landsins. Teikningunum var ætlað að gefa dönskum lesendum innsýn í atburðasvið sagnanna en ekki vera myndræn lýsing á atburðum eða
sagnapersónum. Johannes Larsen kom tvisvar til Íslands í þessum tilgangi, sumrin 1927 og 1930. Hann ferðaðist um á hesti, oft við mjög erfið skilyrði, og var aðalfylgdarmaður hans Ólafur Túbals, bóndi og listmálari frá Múlakoti í Fljótshlíð. Á þessum ferðum sínum teiknaði Johannes Larsen um þrjú hundruð tússteikningar, og birtust 188 þeirra í bókunum. Stærstan hluta listaverka Johannesar Larsens: málverk, teikningar, dúk- og tréristur, er að finna á safni hans Johannes Larsen Museet í Kerteminde á Fjóni.

Á þessari sýningu verða um 30 teikningar sem eru í eigu afkomenda listamannsins, sem eru búsettir í Danmörku, Svíþjóð og Bandaríkjunum. Það er alfarið elju og dugnaði sýningarstjórans og Íslandsvinarins Vibeke Nørgaard Nielsen að þakka að þessar teikningar koma nú fyrir almenningssjónir, hér og áður á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn vorið 2014.
Jafnhliða sýningunni kemur út bókin Listamaður á söguslóðum eftir Vibeke Nørgaard Nielsen, en þar rekur hún ferðir hans um Ísland og birtir brot úr dagbókum hans og sendibréfum frá þessum ferðum. Í bókinni er einnig að finna 72 af myndum Johannesar Larsen, sem birtust í  Íslendingasögunum. Sigurlín Sveinbjarnardóttir þýddi bókina á íslensku og hún er gefin út hjá bókaútgáfunni Uglu.

Listasafn Sigurjóns Ólafssonar er opið um helgar, laugardaga og sunnudaga milli klukkan 14 og 17. Á sýningartímanum verða leiðsagnir, upplestrar og tónlistardagskrár, eins og tilgreint er á heimasíðu safnsins, www.LSO.is  Sýningunni lýkur 22. mars 2015.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com