34309128 2078256425780499 2977286615375806464 N

Sýningaropnun í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði

Laugardaginn 9. júní kl. 14.00 opnar Helgi Þorgils Friðjónsson sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Sýningin ber yfirskriftina Uppstilling með speglum og er að mestu ný verk unnin með Kompuna í huga.
Sýning Helga stendur til 24. júní og er opin daglega kl. 14.00 – 17.00.

Helgi Þorgils Friðjónsson er fæddur í Búðardal 1953, en býr og starfar í Reykjavík. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskólann í Reykjavík 1971 – 1976 og síðan við De Vrije Academie í Haag í Hollandi 1976 – 1977 og Jan van Eyck Academie í Maastricht í Hollandi 1977 – 1979.

Helgi Þorgils er einn af okkar virtu og athafnamestu samtíma listamönnum. Hann hefur sett upp fjölda einkasýninga hérlendis og víða um heim og tekið þátt í fjölda samsýninga.

Helgi Þorgils segir um verkin sín:

Myndlistin mín fjallar um manninn og náttúruna. Viðfangsefnið að vera maður og merkjakerfið sem maðurinn hefur komið sér upp og þróað með sér. Þannig lítur myndlistin út fyrir að fara um víðan völl. 

Ég er alinn upp í fámenni og er það óskiljanlegt, hvað ég hreifst af myndverkum sem ég fann í bókum alveg frá því í bernsku, þegar ég hafði engan möguleika á að skilja hvað þau stóðu fyrir. Þau voru samt frásagnir af atburðum sögunnar og hugarástandi tímans. Svo komu myndskreytingar með námsefninu o. s. frv. 

Þannig er myndlistin mín skrásetning á tilvistinni í gegnum vörðu sagna og listar, sem er einskonar tungumál, samhliða þessu tungumáli sem hver þjóð talar. Ég fer inn í þennan hlaða sögunnar, hvar sem er í tíma og rúmi, og set það sem ég finn inn í nýtt samhengi hugsunar. Mig langar til að hugsa það eins og samhverfu mannsins og náttúrunnar, sem bæði renna saman og geta ekki runnið saman í eina heild, eins og sagan sýnir. Það eru marglaga víddir í hverri mynd, stærðfræðilegir fjarvíddarpunktar og sögulegir. Myndirnar eru afsprengi heimsins. 

Upphafleg merking orðsins náttúra þýðir fæðing. Menning þýðir upphaflega að vinna með eða yrkja náttúruna. Þetta er þess vegna allt spurning um að finna merkingu þess að vera til, og hvernig sú hleðsla sem við erum og það sem við höfum gert sameinast allt í tungumáli sem við stundum skiljum og stundum ekki, og ber fram nýjar spurningar.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com