Sprellikarl

Sýningaropnun: Gabríela – laugardaginn 7. apríl kl 16.00

Einkasýning Gabríelu Friðriksdóttur í Hverfisgalleríi opnar laugardaginn 7. apríl næstkomandi kl 16:00, þar sem sýnd verða rúmlega fimmtíu málverk á striga. Gabríela hefur í listsköpun sinni í hartnær tvo áratugi unnið með fjölbreytta miðla  allt frá teikningum, málverkum og skúlptúrum til gjörninga, tilraunakenndra myndbanda og myndbandsinnsetninga, sem byggir á einstakri fagurfræðilegri sýn. Listheimur hennar er í ætt við súrrealisma, hann byggja blendingar og kynferðislegar verur sem hægt er að túlka sem myndlíkingar fyrir fornar grunnkenndir mannskepnunnar á borð við depurð, sársauka og vanhæfni til að rjúfa eigin einangrun. Nýjustu verk Gabríelu sem sýnd eru á sýningunni í Hverfisgalleríi virðast kannski í fyrstu vera einhvers konar frávik frá þessari fagurfræðilegu heimspeki, vegna þess hve „venjuleg“ og kunnugleg þau eru. Í verkunum skapar Gabríela heim tákna, forma og fígúra sem virðast einangruð og afmörkuð á lituðum striganum en á mótsagnarkenndan hátt eru þau á sama tíma líkt og greypt í tómið í fullkomnum samhljómi. Lýsa má málverkum hennar sem „andlegu landslagi“ sem leitast í sífellu við að draga fram úr djúpi undirmeðvitundarinnar ástand þar sem eilíf óvissa ríkir.

Gabríela Friðriksdóttir (f. 1971) hefur verið stór áhrifavaldur á þá kynslóð myndlistarmanna sem var að stíga sín fyrstu skref hér á landi upp úr aldamótum. Hún vinnur flókin og fjölþætt verk á mörgum sviðum listarinnar í einu og flakkar óhindrað á milli miðla þar sem málverkin eru oft hluti af stærra verki/innsetningu. Verk Gabríelu eru frumleg og ögrandi og búa yfir leyndardómum og afar forvitnilegum myndheimi. Gabríela útskrifaðist af skúlptúrdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1997 og stundaði nám í AVU í Prag. Hún hefur haldið fjölda sýninga um allan heim, bæði ein og með öðrum og var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2005. Verk hennar hafa m.a. verið sýnd í Migros Museum, Zürich; Prospectif Cinema, Pompidou-miðstöðinni í París; Museum of Contemporary Art, Tókýó; Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur; Museum of Modern Art, Ósló; Kunsthaus, Graz; Schirn Kunsthalle, Frankfurt og á Lyon-tvíæringnum árið 2014.

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com