C1a3af3b 406c 4382 8dd2 C000316665ca

Sýningaropnun: Erró snýr aftur og Guðmunduverðlaunin afhent


Erró snýr aftur og Guðmunduverðlaunin afhent
Laugardag 7. október kl. 14 í Hafnarhúsi

Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson opnar sýningu á verkum Errós, Því meira, því fegurra, í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, laugardag 7. október kl. 14.00.

Sérstakir boðsgestir eru nemendur í 7. og 8. bekkjum grunnskóla Reykjavíkur enda sýningin og dagskrá henni tengd unnin með ungt fólk í huga og Erró listamaður sem á sér marga aðdáendur í þeim hópi.

Við sama tækifæri afhendir borgarstjóri viðurkenningu úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur. Sjóðnum er ætlað að efla og styrkja listsköpun kvenna. Erró stofnaði sjóðinn árið 1997 til minningar um Guðmundu frænku sína. Öflugur hópur íslenskra listakvenna hefur þegar fengið þessa viðurkenningu og bætist nú áhugaverð listakona í þann hóp.

Á sýningunni Því meira, því fegurra er varpað sérstöku ljósi á verk Errós sem byggjast á ofgnótt og ofmettun. Slík myndgerð hefur alla tíð verið mikilvægur þáttur í listsköpun hans og eitt af því sem markað hefur honum sess í alþjóðlegri myndlist. Á sýningunni er hægt að kynnast vinnuaðferðum listamannsins – málverkum, klippimyndum, skúlptúrum og kvikmyndum. Meira en þrjátíu verk úr Errósafni Listasafns Reykjavíkur sýna hvernig Erró notar sér ríkulegan myndheim stjórnmála, vísinda, skáldskapar, mannkynssögu og listasögu. Sýningarstjóri er Danielle Kvaran, sérfræðingur Errósafns Listasafns Reykjavíkur.

Á opnuninni verður jafnframt kynnt ný bók um listamanninn sem gefin er út af Rizzoli bókaforlaginu í New York. Í bókinni, sem er á ensku, er fjöldi mynda frá öllum ferli Errós en einnig greinar eftir listfræðingana Kevin McGarry, Hannah Black, Ruba Katrib, Alain Jouffroy og Danielle Kvaran auk viðtals sem Hans Ulrich Obrist tók við listamanninn. Bókin er yfirgripsmikil og mikill fengur af henni fyrir aðdáendur listamannsins.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com